Fimmtudagur 4. júní 2015

Vefþjóðviljinn 155. tbl. 19. árg.

Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur fór um landið vorið 2011 með mikilvægt erindi. Hann vildi sannfæra landsmenn um að gangast í ábyrgð fyrir mörg hundruð milljarða króna skuldum fallins einkabanka. Allt í erlendum gjaldeyri. Hann stofnaði einnig samtökin Áfram sem reyndu með ýmsum misgáfulegum aðferðum að hræða landsmenn til fylgilags við hinn merka málstað að vera veðsettur fyrir annarra manna skuldir.

Þetta var einlægt hugsjónamál Benedikts, Ólíkt mörgum öðrum var hann ekki á launum hjá ASÍ, SA, VÍ, SI, bönkunum, 365, DV, Ríkisstjórnarútvarpinu eða Jóhönnu og Steingrími við að breiða þetta erindi út um landsbyggðina. En vissulega var þetta hugsjónastarf hluti af því áhugamáli hans að Ísland verði aðili að ESB.

Benedikt boðar nú stofnun stjórnmálaflokks um áhugamál sín. Á Eyjunni í dag ef haft eftir honum:

Við viljum aðallega höfða til þeirra sem vilja frelsi í viðskiptum, frjálslyndi í samskiptum, umburðarlyndi og heiðarlega stjórnsýslu.  Við sjáum á hverjum einasta degi að þessi grundvallar atriði eru brotin. Stundum finnst mér líkt og þeir sem sitji á þingi nú séu á kaupi við að gera regin mistök.

Er það frelsi í viðskiptum að gera almenning ábyrgan fyrir skuldum einkabanka?

Er það frjálslyndi í samskiptum að beygja sig fyrir kröfum erlendra ríkja um að slíkar skuldir einkabanka séu hengdar á almenning?

Væri það heiðarleg stjórnsýsla að láta áhugamál sitt um ESB aðild vega svo þungt að það megi hneppa almenning í skuldaánauð vegna þess?

Hvaða regin mistök hafa verið gerð á þingi undanfarið sem gætu jafnast á við þá hugsjón Benedikts að undirgangast Icesave ánauðina?