Vefþjóðviljinn 145. tbl. 19. árg.
Menn halda ýmsu fram í kjarabaráttu. Ekki er það allt jafn skemmtilegt.
Það var til dæmis ekki skemmtilegt að sjá þátttakendur í kröfugöngum 1. maí síðastliðinn halda á skiltum þar sem stóð „Lægri laun fyrir lítið menntaða!“
Reyndar var textinn ekki nákvæmlega svona. Hann var víst frekar „Menntun verði metin til launa“, en það er auðvitað einungis annað orðalag yfir sömu kröfu. Ef „menntun“ starfsmanna á að ráða úrslitum um laun þeirra, þá hlýtur menntunarleysi að skipta sama máli. Sá sem telur sanngjarnt að „meiri menntun“ starfsmanns skili sér í hærri launum, telur einnig sanngjarnt að lítil menntun skili sér í lægri launum.
Þetta skilja líklega flestir. Það sem mörgum gengur hins vegar verr að skilja, er að starfsmaður verður vinnuveitanda sínum ekkert endilega verðmætari þótt hann „bæti við sig gráðu“. Þótt einhver fari í eitt eða tvö ár og „nái sér í mastersgráðu“,þá verður hann ekki sjálfkrafa neitt verðmætari starfsmaður.
Kennari sem tekur sér hlé frá kennslu og kemur til baka með einhverja mastersgráðu í kennslufræði frá háskólanum í Utrecht, þar sem hann skrifaði ritgerð um upplifun femínskra nemenda í karllægu kennsluumhverfi, er hann eitthvað betri kennari en hann var áður en hann fór út? Er hann orðinn betri en vinnufélaginn sem hélt áfram að kenna á meðan hinn sat fyrirlestra og skrifaði ritgerð?
„Þetta eru nú ekki há laun eftir fimm ára háskólanám“, heyrist oft sagt. En verðmæti starfsmannsins fer ekki endilega eftir því hvað hann tók marga kúrsa í háskólanum. Það getur alveg verið að verðmæti vinnu hans aukist, en það er ekkert víst. Það er hreinn misskilningur ef menn halda að „aukin menntun“ skili sér alltaf í betri starfsmönnum og verðmætari vinnu.