Vefþjóðviljinn 128. tbl. 19. árg.
Ríkisútvarpið er alveg einstakt. Fréttastofa þess er hálfgert fyrirbrigði, sem yfirvöld virðast alls enga getu hafa til að taka á. Fréttamenn skáka í því skjóli og nota fréttastofuna eins og einkaeign sína og hika ekki við að gera látlausar fréttir um áhugamál sín og baráttumál.
Skemmtilegt dæmi um fréttamatið í Efstaleiti var þegar fréttamaður var sendur á staðinn og útvarpaði beint frá mótmælum við velferðarráðuneytið, en samkvæmt talningu fréttamannsins sjálfs voru „um fimm manns“ mættir í mótmælin. Í fréttinni var fulltrúi þessara fimm spurður einnar spurningar: „Helga Björk hverju viljið þið koma á framfæri?“ og svo fékk fulltrúinn hljóðnemann og fékk að halda ræðu yfir landsmönnum.
Í Efstaleiti 1 sér enginn neitt að þessu.
Í vikunni var efnt til verkfalla og fréttastofan var auðvitað á iði. Í gær rak stórfrétt á fjörunar í Efstaleiti.
Meðal þeirra sem voru í tímabundnu verkfalli voru bílstjórar á skólabílum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins gerði þá frétt um að einn faðir hefði ákveðið að keyra syni sína ekki í skólann þann dag, til að sýna samstöðu sína með verkfallsmönnum. Fréttamaður fór heim til föðurins, talaði við hann og birti mynd af sonunum.
Einn faðir ákvað að keyra syni sína ekki í skólann þennan dag. Fréttastofa Ríkisútvarpsins gerir frétt.
En fréttamennirnir vita auðvitað að enginn þorir að gera neitt í þessu. Það nýjasta sem heyrðist frá menntamálaráðherra var að hann er hættur við að leggja til að útvarpsgjaldið á landsmenn verði lækkað. Það hefði getað reitt menn til reiði í Efstaleiti.