Vefþjóðviljinn 124. tbl. 19. árg.
Á bókmenntaopnu sunnudagsblaðs Morgunblaðsins í gær var rætt við Börk Gunnarsson kvikmyndaleikstjóra og varaborgarfulltrúa um eftirlætisbækur hans. Hann nefnir nokkur verk, meðal annars Ský í buxum eftir Vladimir Majakovski. Um skáldið segir hann: „Majakovskí var ekki áhugaverð persóna, þótt ljóðabók hans væri það. Hann var kommúnisti og mjög grimmur sem slíkur. Niðurlægði þá sem voru andstæðrar skoðunar, hvatti jafnvel til dráps á borgaralegum höfundum. Í dag væri hann væntanlega veifandi fána femínismans, bendandi fingri á feðraveldið og væri öruggur um tólf mánaða áskrift hjá launasjóði rithöfunda út á heift sína og óbilgirni.“
Það er sannleikskorn í því hjá Berki að í menningarlífinu gjalda ekki allir fyrir heift sína og óbilgirni. Ótrúlega oft má lesa mjög ósanngjörn stóryrði skálda og rithöfunda um ýmis þjóðfélagsmál án þess að nokkur virðist telja trúverðugleika þeirra laskast neitt við ofstopann. Stundum er eins og skáldum leyfist hvað sem er, svo lengi sem stóryrðin koma úr vinstriáttinni. Og er þetta ekki gömul saga og ný? Stærsta skáld vinstrimanna skrifaði bækur til varnar Stalín. Önnur eru móð og másandi út af kvótakerfinu.