Vefþjóðviljinn 118. tbl. 19. árg.
Þeir eru margir frasarnir.
„Nú á dögum hefur fólk svo mikinn aðgang að upplýsingum. Það er miklu upplýstara. Það lætur ekki mata sig.“
Þetta er ekki svo sjaldan sagt. Og jú, netið hefur gert mönnum miklu fljótlegra en áður að afla sér „upplýsinga“.
En af þessum „aukna aðgangi að upplýsingum“ virðast margir draga þá álykun að fólk sé miklu „upplýstara“, að það viti meira og skilji nú hlutina dýpri skilningi en áður.
Úti um allt eru „upplýsingar“, sem menn geta náð sér í á fáum sekúndum. Þessar „upplýsingar“ eru hins vegar oft einhverjar fullyrðingar sem enga skoðun standast, hálfsannleikur, misskilningur, áróður.
Fólk hefur ekki aðeins mjög greiðan aðgang að „upplýsingum“. Aðgangurinn er ekki síður greiður að hvers kyns rugli og ranghermi.
Fólk fær ekki fróðleik sinn aðeins frá fjölmiðlum sem treysta þurfa á orðspor sitt og traust kröfuharðra áskrifenda, eða vönduðum fræðiritum sem búa við aðhald ritstjóra, ritdómara og höfunda annarra rita. Nú geta menn fengið skyndifróðleik sem einhver hefur sett saman á fimm mínútum og sett á netið. Fréttum og fréttaskýringum fylgja svo stundum „athugasemdir“ lesenda, samdar á hálfri mínútu, birtar eftir sekúndu, og settar fram í því trausti að enginn beri ábyrgð á athugasemdinni.
Við þessar aðstæður er oft hið „stóraukna aðgengi að upplýsingum“.
Auðvitað hafa menn líka raunverulega aukinn aðgang að upplýsingum. Alls kyns skýrslur og rannsóknarniðurstöður eru til dæmis aðgengileg á netinu. Menn geta keypt áskrift að vönduðum fjölmiðlum, bæði blöðum og tímaritum, og fengið þau ekki aðeins gegnum bréfalúguna heldur einnig í tölvuna, símann, úrið og eyrnalokkana. Hér eins og svo oft áður gildir að veldur hver á heldur. Stóraukna aðgengið að upplýsingunum getur gert menn upplýstari. En það getur líka gert menn að hópsál, sem deilir almennri yfirborðskenndri skyndiskoðun, algerlega án raunverulegrar þekkingar.
Það er nefnilega líka stóraukið aðgengi að lélegum upplýsingum, einfeldingslegum skýringum og almennum misskilningi.
Já og með allan þennan aðgang að upplýsingum, getur þá einhver fundið í hvaða máli heilög Katrín Jakobsdóttir stóð ekki fullkomlega með Steingrími J. Sigfússyni síðasta áratuginn? ESB? Icesave 1? Icesave 2? Icesave 3? Landsdómur? Skattahækkanir?
Varla getur verið að aldrei hafi neitt skilið á milli þeirra? Hún er heiðarlegasti Íslendingur sögunnar.