Vefþjóðviljinn 108. tbl. 19. árg.
Borgarstjórn Reykjavíkur leggur mikla áherslu á að borgarbúar lesi sundur sorpið sitt, laufblað í græna tunnu, dagblað í bláa takk, rakvélarblað í gráa og hjólsagarblað í bíltúr út á endurvinnslustöð. Fleiri tunnur, meira land og stærri skýli undir þær, fleiri ferðir sorpbíla. Allt í þágu flokkunar.
Fyrir þessu föndri hefur verið rekinn áróður fyrir tugi milljóna á kostnað borgarbúa. Flokka og skila. Þeir sem ekki standa sig í stykkinu fá hótanir frá borgaryfirvöldum um að sorp verði ekki hirt frá þeim.
Hér að ofan er mynd sem tekin var í Vesturbænum í Reykjavík í fyrradag og birtist á Facebook. Þar má sjá sorp úr þremur tunnum renna ofan í einn sorpbíl. Flokkaði pappinn úr bláu tunnunni er látinn gossa saman við matarafganga, plastpoka og bleyjur úr gráum tunnum.