Vefþjóðviljinn 91. tbl. 19. árg.
Tvö frumvörp sem varða friðhelgi einkalífs voru lögð fram á alþingi í síðustu viku.
Annars vegar lögðu Sigríður Á. Andersen og Birgir Ármannsson fram frumvarp sem takmarkar verulega aðgang manna að persónugreinanlegum upplýsingum sem skattyfirvöld viða að sér. Þannig verður álagningarskrá ekki lengur opin og aðgangur að skattskrá mun takmarkast við þrjár uppflettingar. Hver borgari mun þannig geta flett upp allt að þremur gjaldendum telji hann sig þurfa þess. Eða eins og segir í greinargerð með frumvarpinu: „Með því móti geta þeir sem telja sig hafa ástæðu til að ætla að pottur sé brotinn hjá tilteknum framteljendum fengið upplýsingar um álagðan skatt þeirra, en ólíklegt verður að telja að menn hafi sterkan grun um slík atriði hjá mörgum framteljendum í senn.“ Uppflettingarnar verða skráðar hjá skattyfirvöldum en ekki tilkynntar hinum uppfletta. Opinber birting persónuupplýsinga úr skattskránni verður ekki heimil.
Þetta fyrirkomulag væri stórkostleg framför frá því sem nú er. Eins og staðan er nú útvegar ríkið sölumönnum persónuupplýsinga nánast ótakmarkaðan aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum sem skattyfirvöld safna saman.
Hins vegar lögðu Sigríður og Birgir fram frumvarp sem tekur af allan vafa um að allir skuli tilkynna viðmælendum sínum að samtal sé hljóðritað og fá einfalt munnlegt samþykki þeirra fyrir því og heimild til að vitna orðrétt í upptökuna. Einhverjir fjölmiðlamenn hafa í sjálfhverfu sinni talið þetta frumvarp snúast um starf blaðamanna. Svo er þó ekki. Frumvarpið snýst um friðhelgi einkalífs hins almenna manns. Er ekki sjálfsagt að leitað sé einfalds samþykkis fólks fyrir því að það sé hljóðritað þar sem það stendur heima í eldhúsi með fjölskyldunni og fær hringingu frá þjónustufulltrúa í banka eða blaðamanni á Slúðrað og slefað?
Auðvitað er það líka rangt, sem einhverjir fjölmiðlamenn halda fram í sannleiksleit sinni, að frumvarpið geri ráð fyrir að skriflegt samkomulag þurfi um hljóðritun samtals. Auðvitað nægir samkvæmt frumvarpinu að sá sem vill taka upp láti viðmælandann einfaldlega vita, og eftir það má hann taka upp.
Er ekki sjálfsagt að lög um fjarskipti og hljóðritanir símtala gildi jafnt um alla, hvort sem þeir kynna sig sem blaðamenn, pistlahöfunda, bloggara, fésbókara, þjónustufulltrúa, læknarita eða hvaðeina? Af hverju eiga fjölmiðlamenn alltaf að fá sérmeðferð?
Auðvitað halda sumir fjölmiðlamenn að allt snúist um þá. Og að allir hugsi, þegar blaðamaður hringir, að nú séu þeir strax komnir í hljóðritað viðtal. En auðvitað er það ekki þannig. Á hverjum degi ræða fjölmiðlamenn við fólk sem er óvant samtölum við fjölmiðlamenn. Jafnvel á erfiðum stundum í lífi þess. Auðvitað vilja sumir fjölmiðlamenn að þeir þurfi ekki að vara fólk við upptökunni. Þeir eru að leita að einhverju til að slá upp. Svo eru ótal samtöl fjölmiðlamanna við fólk set fram eins og upplýsingaleit, en ekki viðtal. Hvaða reglur gilda á einhverju sviði? Hvert er best að leita til að fá upplýsingar um þetta? Viðmælandinn ræðir við fjölmiðlamanninn eins og maður við mann, og dettur ekki í hug að á meðan gangi bandið, tilbúið að veiða hvaða vanhugsuðu setningu sem er.
En það er sérkennilegt að sumir fjölmiðlamenn segja í senn að allir viti að þeir taki upp öll símtöl, en ef þeir þurfi að láta fólk vita af upptökunni, þá fái þeir minna upp úr viðmælandanum. Viðmælandinn er sem sagt með hugann við upptökuna þegar blaðamaðurnn hringir, en þegar honum er sagt af því, sem hann var auðvitað með hugann við, þá lokast hann alveg og blaðamaðurinn fær ekki uppsláttinn.
Bæði frumvörpin skerpa á þeirri vernd sem friðhelgi einkalífs á að njóta.