Þriðjudagur 31. mars 2015

Vefþjóðviljinn 90. tbl. 19. árg.

Af forsíðu Fréttablaðsins 29. nóvember 2013. Því miður voru dæmi um það á síðasta kjörtímabili að einkafyrirtæki fengi að skrifa lagafrumvarp út frá sínum þröngu hagsmunum.
Af forsíðu Fréttablaðsins 29. nóvember 2013. Því miður voru dæmi um það á síðasta kjörtímabili að einkafyrirtæki fengi að skrifa lagafrumvarp út frá sínum þröngu hagsmunum.

Líkt og vikið var að á þessum vettvangi á laugardaginn hafa þingmenn Samfylkingar og Pírata/Hreyfingarinnar fjórum sinnum frá árinu 2012 lagt fram tillögu til þingsályktunar um „niðurfellingu gjalda á vistvænt eldsneyti.“ Gjöld á vistvænt eldsneyti hafa þó haft slíka undanþágu frá árinu 2010 hvað vörugjöld á eldsneyti varðar og frá 2012 hvað kolefnisgjald varðar.

Í Morgunblaðinu í dag er Katrín Júlíusdóttir spurð um þennan sérstæða tillöguflutning:

Hún segir að sér sé vel kunnugt um að nú þegar séu gjöld felld niður á vistvænt eldsneyti, framleitt á Íslandi. Þær heimildir hafi verið tímabundnar en þingsályktunartillagan gangi fyrst og fremst út á að halda afnámi gjaldanna alveg þar til 10% markinu hefur verið náð.

Þetta er rangt hjá Katrínu. Þessar undanþágur eru ekki tímabundnar. Þvert á móti hafa þær staðið ótímabundnar í lögum frá 2010. Þær má auðvitað afnema hvenær sem er með lögum. Þingsályktunartillaga myndi engu breyta þar um.

Þetta rennir því frekari stoðum undir þær grunsemdir að þingmenn Samfylkingarinnar og Pírata hafi ekki gert sér grein fyrir hvað þeir voru að leggja fram. Til hvers í ósköpunum að leggja fram þingsályktunartillögu um eitthvað sem þegar er ótímabundið í lögum?  

Hvernig ætli standi á því?

Því miður voru um það dæmi á síðasta kjörtímabili að einkafyrirtæki fengju að skrifa lagafrumvörp um tiltekið efni sem varðaði sérhagsmuni þeirra. Steingrímur J. Sigfússon lagði eitt slíkt frumvarp fram sem iðnaðarráðherra vorið 2013. Það frumvarp varðaði einnig svonefnt vistvænt eldsneyti.

Þegar upp komst um vinnubrögðin sagði Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði í Fréttablaðinu 17. desember 2013:

Það hefði verið eðlilegra ef ráðuneytið hefði samið erindisbréf fyrir einhvern starfshóp um það hvað ætti að koma út úr vinnunni sem lýsti pólitískri forgangsröðun og þeim kröfum sem væru gerðar til þeirrar vinnu, frekar en að gera einhverja tillögu frá fyrirtæki sem á verulegra hagsmuna að gæta að útgangspunkti.

Það er því ekki að tilefnislausu sem menn velta vöngum yfir þingsályktunartillögunni um vistvæna eldsneytið sem þingmenn Samfylkingar hafa lagt fram aftur og aftur og aftur.