Vefþjóðviljinn 84. tbl. 19. árg.
Af og til gerist það að stjórnmálamaður kemst að kjarna málsins. Það gerði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra í umræðum á Alþingi í fyrradag. Haldin var sérstök umræða um svokallaðan fjárfestingarsamning við fyrirtækið Matorku, „ívilnanir til nýfjárfestinga“ eins og það er stundum nefnt til að breiða yfir fyrirgreiðslupólitíkina.
Ráðherranum var heitt í hamsi og samkvæmt fréttum varði hún hendur sínar svona:
Ég ætla að fullyrða það hér og nú að þetta mál og þessi samningur hefði fengið nákvæmlega sömu afgreiðslu í tíð þriggja síðustu iðnaðarráðherra, þeirra Katrínar Júlíusdóttur, Oddnýjar Harðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.
Ætli í þessu sé ekki fólginn mikill sannleikskjarni, sem forysta Sjálfstæðisflokksins áttar sig engan veginn á. Er það ekki þannig með næstum öll embættisverk núverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, að þau hefðu alveg eins getað verið unnin af Steingrími J. Sigfússyni, Katrínu Jakobsdóttur, Kristjáni Möller, Katrínu Júlíusdóttur eða Össuri Skarphéðinssyni?
Hvað hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gert til að snúa við af þeirri braut sem ráðherrar síðustu vinstristjórna höfðu markað? Hvaða lög, sem sett voru í tíð síðustu ríkisstjórnar, hafa verið afnumin? Hvaða reglugerðir? Hvaða námskrá? Hvaða skemmdarverk í stjórnarráðinu? Hvaða skattar? Hvaða pólitíska breyting gerð?
Hvað?
Jú til að allrar sanngirni sé gætt var veiðgjaldinu breytt þannig að hægt væri að innheimta það og almenn vörugjöld vissulega felld niður sem var mikil framför.
Samkvæmt könnunum nýtur Sjálfstæðisflokkurinn nú minna fylgis ungra kjósenda en nokkru sinni áður. Ætli það geti verið vegna þess að yngri kynslóð kjósenda þekkir ekki annan Sjálfstæðisflokk en þann sem nú situr í stjórnarráðinu og ber þaðan fjölmörg embættismannafrumvörp inn á þingið, en kemur ekki með neitt pólitískt sem byggt er á sjálfstæðisstefnunni?
En ráðherrar Sjálfstæðisflokksins halda að allt sé í lagi.