Vefþjóðviljinn 73. tbl. 19. árg.
Í tvö ár hefur Evrópusambandssinnum með ótrúlegri frekju tekist að halda Íslandi sem umsóknarríki að Evrópusambandinu, þótt bæði ríkisstjórn landsins og meirihluti alþingis vilji að Ísland sé ekki umsóknarríki. Það er árangur sem síðar mun þykja óskiljanlegur. Eins og margt af því sem sagt hefur verið á Íslandi undanfarin misseri.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins dregur auðvitað ekki af sér.
Daginn sem bréf ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins var birt sagði í fréttum þess:
Það kom skýrt fram í þessu viðtali sem tókum við utanríkisráðherra núna síðdegis að hann telur að það sé á valdi framkvæmdavaldsins að skýra Evrópusambandinu frá ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. En við megum ekki gleyma því að þingsályktunartillagan sem var samþykkt 16. júlí 2009, um að sækja um aðild, hún er enn í fullu gildi, hún hefur ekki verið felld úr gildi og ekki verið dregin til baka.
Já, það er þetta með þingsályktunartillögurnar sem hafa skyndilega öðlast eilíft gildi og binda hendur og fætur ríkisins um ókomin ár, nema þær séu felldar úr gildi, eða „dregnar til baka“. Utanríkisráðherra „telur“ kannski eitthvað, en „við megum ekki gleyma“ einhverju sem fréttamenn slá föstu.
Það er margt sem ríkisstjórnin hefur á samviskunni. Hún hefur vanrækt margar skyldur sínar. Raunar hafa fyrri ríkisstjórnir gert það líka. Það merkilega er að fréttamenn hafa ekki fylgt þessum vanrækslumálum eftir.
Taka má dæmi af handahófi:
Í maí 1992 samþykkti Alþingi þingsályktun þar sem það beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að „að vinna að framkvæmd ályktana Vestnorræna þingmannaráðsins sem samþykktar voru á fundi ráðsins í Qaqortoq á Grænlandi 7. ágúst 1991“.
Hefur þessi þingsályktun verið felld úr gildi með skýrum hætti? Er hún þá ekki enn í gildi? Hvað hafa síðustu ríkisstjórnir gert til þess að vinna að framkvæmd þessara ályktana? Gengu þær kannski úr skugga um að búið væri að hrinda þeim öllum í framkvæmd? Er kannski öruggast að samþykkja nýja þingsályktun um að fella þessa „úr gildi“?
Nei auðvitað ekki. Allir vita að þetta er vitleysa. Þingsályktanir hafa ekkert gildi umfram það umboð sem þingið, sem samþykkti þær, hefur sjálft.
Enda sagði Björg Thorarensen lagaprófessor réttilega í gær að ályktunin frá árinu 2009 hefði ekki „skuldbindandi gildi sem fyrirmæli gagnvart sitjandi ríkisstjórn. Ef að Alþingi vildi árétta þá afstöðu sem kemur fram í þessari þingsályktun eða taka af skarið um skyldur ríkisstjórnar í þeim efnum þá myndi Alþingi einfaldlega álykta aftur um að ríkisstjórnin myndi þá fylgja þessari þingsályktun. En það hefur ekki gerst og ef að Alþingi er ekki sátt við það hvernig ríkisstjórnin og utanríkisráðherra vinna sín verkefni, þá er þetta úrræði að víkja ríkisstjórninni frá völdum eða samþykkja vantraust á hana eða ráðherra.“
Þetta er auðvitað augljóst. Það er hreint rugl að ályktunin frá árinu 2009 sé í gildi og að samþykkja þurfi sérstaka ályktun um að fella hana úr gildi. Enda hefur aldrei nokkrum manni dottið það í hug fyrr en nú, þegar nokkrar frekjur vilja hræða ríkisstjórnina til að lúta vilja þingsins sem sat sumarið 2009.
Þingsályktunin sem samþykkt var sumarið 2009 er ekki „í gildi“ og kemur ekki í veg fyrir að ríkisstjórnin afturkalli inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið.
En gæti ný ríkisstjórn þá farið af stað aftur, til dæmis eftir tvö ár, og lagt inn nýja umsókn án samþykkis Alþingis? Gildir ekki það sama þá og nú, að ríkisstjórn þarf ekki samþykki Alþingis fyrir ákvörðunum sínum?
Nei alls ekki. Ný ríkisstjórn gæti ekki sótt um aðild án samþykktar Alþingis. Ríkisstjórn sem situr við völd til dæmis árið 2017 getur ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu í umboði þingsins sem sat í júlí 2009.
Menn myndu skilja þetta enn betur ef þeir breyttu ártalinu 2017 í til dæmis 2027 eða 2037 eða jafnvel 2057. Dettur einhverjum í hug að utanríkisráðherra árið 2040 gæti skyndilega lagt inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu án þess að spyrja nokkurn mann, af því að þingsályktun, sem hefði verið samþykkt í júlí 2009, hefði ekki verið „felld úr gildi“, og væri því enn „í gildi“.
Auðvitað sæju allir að þetta væri rugl. Og það væri rugl af þeirri einföldu ástæðu að þingsályktunartillögur þarf ekki að fella úr gildi. Þær „gilda“ ekki lengur en umboð þess þings sem ályktaði. Ályktun sem samþykkt var árið 2009, hefur alveg sama gildi árið 2015 og hún myndi hafa árið 2040: Ekkert.
Og þess vegna getur ríkisstjórnin hvenær sem er tilkynnt Evrópusambandinu að Evrópusambandsumsókn Íslands sé afturkölluð.
Þingið sem hafði umboð 2009 til 2013 er eina þingið sem hefur veitt umboð til umsóknar að Evrópusambandinu. Eftir kosningarnar sumarið 2013 hefur ekkert slíkt umboð verið fyrir hendi og enginn þingmeirihluti fyrir því að Ísland sé umsóknarríki að Evrópusambandinu.
Málið er ekkert flóknara en þetta.