Vefþjóðviljinn 70. tbl. 19. árg.
Haustið 2006 samþykktu allir flokkar á alþingi tillögu að lögum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda sem áttu að verða mikill spillingarbani. Síðan hefur einkunn Íslands hjá Transparency International lækkað ár frá ári.
Lögin frá 2006 svo gott sem bönnuðu styrki til stjórnmálaflokkanna; settar voru mjög þröngar skorður við leyfilegum fjárhæðum og kveðið á um upplýsingaskyldu um þær smáu fjárhæðir sem veita má til stjórnmálastarfsemi.
Svo hart var gengið fram með þessum reglum að þær ganga þvert á þá vernd sem stjórnarskrá lýðveldisins veitir mönnum til tjáningar- og félagafrelsis og til friðhelgi einkalífs. Fyrr enn síðar hljóta menn að láta á það reyna hvort þessi skerðing á réttindum manna haldi fyrir dómi.
Um leið og þingið valtaði á þennan hátt yfir frelsi manna til stjórnmálastarfsemi voru ríkisstyrkir til flokkanna auknir verulega. Stjórnmálin voru ríkisvædd.
Undanfarna daga hefur svonefnd fréttastofa Ríkisútvarpsins flutt af því miklar fréttir að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hans hafi þegið styrki sem – já haldið ykkur fast – eru í samræmi við lögin góðu um fjármál flokkanna. Stjórnarflokkarnir hafi fengið meiri styrki frá fyrirtækjum í sjávarútvegi en hinir flokkarnir, hamrar Ríkisútvarpið á. Vafalaust eru einhverjir áhorfendur farnir að trúa því að þessir flokkar séu að mestu leyti fjármagnaðir af sægreifum.
Þess vegna er áhugavert að skoða reikninga flokkanna á vef ríkisendurskoðunar sem skoðar þá eins og hverjar aðrar ríkisstofnanir þótt það sé augljós hætta í því fólgin að ríkisvaldið hafi slíkan aðgang að stjórnmálaflokkum, ekki síst stjórnarandstöðuflokkum á hverjum tíma.
Í ársreikningi Sjálfstæðisflokksins má sjá að styrkir frá fyrirtækjum voru innan við 10% af heildartekjum flokksins árið 2013. Styrkir frá sjávarútvegsfyrirtækjum voru innan við 3% af heildartekjum flokksins.