Vefþjóðviljinn 67. tbl. 19. árg.
Um mánaðamótin var minnst „afmælis bjórsins“, eða öllu heldur þess að Íslendingum var leyft að kaupa sér bjór á Íslandi, annars staðar en í Fríhöfninni. Baráttan gegn bjórbanninu hafði verið löng og stóryrðin ekki spöruð í baráttunni gegn verslunarfrelsi á þessu sviði. Flestum forvarnartrompunum var spilað út, rétt eins og nú þegar tekist er á um frumvarp um afnám einkasölu ríkisins á áfengi í verslunum. Líklega má segja að öll rökin sem notuð voru á níunda áratug síðustu aldar gegn bjórnum, hafi verið notuð nú, að „bjórvömbinni“ og salernisskorti í miðbænum undanskildum. Meðal röksemdanna gegn því að Íslendingar fengju að kaupa sér bjór á Íslandi var að bjór væri mjög fitandi, „bjórvömb“ yrði stórt vandamál, og bjórdrykkja kallaði á tíðar salernisferðir sem veitingahús í miðbænum gætu ekki annað, og svo voru afleiðingar þess fyrir miðbæinn útskýrðar vandlega.
Nú dettur líklega fáum í hug að leggja „bjórbannið“ á aftur. Sá sem talaði fyrir því ætti sér víst tæplega viðreisnar von, nema auðvitað ef það væri Jón Gnarr, sem getur sagt hvað sem er og ef það er tóm vitleysa þá sýnir það bara hversu einlægur hann er.
Á dögunum efndu ungir sjálfstæðismenn og Ungir jafnaðarmenn til sameiginlegs fagnaðar til að halda upp á afnám bjórbannsins. Af því tilefni tóku Ungir jafnaðarmenn það fram að með því væru þeir ekki að lýsa stuðningi við frumvarp um afnám einkasölu ríkisins á áfengi í verslunum.
En hverjum datt það í hug? Vinstriflokkarnir styðja ekki frelsið þegar á reynir. Ef einhvers staðar á að auka frelsi þá eru þeir yfirleitt á móti því. Stundum gangast þeir við því að vera það í grundvallaratriðum, en oft finna þeir einhverjar tæknilegar ástæður fyrir því að vera á móti. Það er ekki búið að undirbúa málið nógu vel. Þetta er ekki rétti tíminn. Það væri nær að gera eitthvað annað.
Sama má segja um skattalækkanir. Vinstriflokkarnir vilja aldrei létta skattakrumlunni af vösum landsmanna. Ef skattalækkun er lögð til þá geta þeir ekki stutt hana. Það er verið að lækka ranga skatta. Tíminn er alveg vitlaus. Ef skattalækkun er lögð til í góðu árferði, þá er sagt að hún auki þenslu og hækki verðbólgu. Ef skattalækkun er lögð til í erfiðu árferði, þá má ríkið ekki missa „tekjustofna“ við núverandi aðstæður. Það er líka verið að lækka ranga skatta. Þessi lækkun gagnast ekki réttum hópi. Það væri nær að lækka einhverja aðra skatta, sem við höfum þó aldrei lagt til að yrðu lækkaðir. Hver einasta skattalækkunarhugmynd sýnir „ranga forgangsröðun“. „Þessi tekjuskattslækkun gagnast bara alls ekki þeim sem nú greiða engan tekjuskatt. Hvernig stendur á því?“
Þetta er ekkert nýtt. Menn geta farið yfir söguna og þar blasa meginlínurnar við. Vinstriflokkarnir treysta venjulegu fólki lítið sem ekkert fyrir eigin málum. Þeir vilja reglur á öllum sviðum, opinberar stofnanir og opinbert eftirlit. Í borgarstjórn Reykjavíkur reyndu þeir að hindra að afgreiðslutími verslana yrði gefinn frjáls. Þeir lögðu meira að segja til, í staðinn fyrir að verslunareigendur réðu því hvenær væri opið, að borgin opnaði eina „neyðarverslun“ sem þeir gætu verslað í sem endilega þyrftu að kaupa inn, utan hins opinbera afgreiðslutíma.
Það er ekki undarlegt þótt vinstriflokkarnir hafi oft átt lítið upp á pallborðið hjá mörgu ungu fólki. En hvað segist ungt fólk nú ætla að kjósa?
Fólki er ekki kennd mikil saga í skólum. Er víst að allir ungir kjósendur velti mikið fyrir sér hvaða almennu mynd má fá af stjórnmálaflokkunum, ef framganga þeirra til lengri tíma er skoðuð?
Hvað kjósa yngstu kjósendurnir, eða sá hluti þeirra sem aðeins dæmir flokkana eftir því sem forystumenn þeirra hafa sagt og gert á allra síðustu misserum, og svo því sem álitsgjafar hafa sagt um flokkana á sama tíma?
Hér er óplægður akur fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Það þarf einfaldlega að útskýra það aftur og aftur að skattalækkanir snúist um að auka frelsi hins venjulega manns til að ráða sjálfur afrakstri eigin vinnu. Það er grundvallaratriði að hver maður megi ráða sem mestu um eigið líf, svo lengi sem hann brýtur ekki á öðrum.
Það er vegna þessarar grundvallarsannfæringar sem flokkurinn vilji afnema sem flestar reglur sem settar hafa verið til að þvinga lífsskoðun stjórnmálamanna og embættismanna upp á hinn almenna mann.
Það þarf að afnema kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja – ekki til að halda konum niðri heldur vegna þess grundvallaratriðis að ríkinu kemur kynferði stjórnarmanna ekkert við. Ríkið má hætta að banna eigendum fjölbýlishúsa að leyfa reykingar í eigin sameign jafnvel þegar allir þeirra vilja leyfa þær – ekki af því að sjálfstæðismenn séu hlynntir reykingum heldur vegna þess að ríkið á ekki að ráða því hvort fólk reykir í eigin húsum. Það má leggja það til að fólk megi taka þriggja milljóna króna bankalán án þess að fara í greiðslumat – ekki af því að þeir mæli með því að fólk fari ekki í „greiðslumat“, heldur vegna þess að fólk á að fá að ráða þessu sjálft.
Þannig mætti lengi telja málin sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins gætu lagt fram.
Ein og sér eru slík frumvörp ekki lykill að fylgi ungs fólks, eða annarra. En ef grundvallaratriðin að baki þeirra eru útskýrð þá sýna þau stjórnmálaflokk sem fyrst og fremst treystir venjulegu fólki til að taka ákvarðanir í eigin lífi. Og það er lykill að virðingu frjálslyndra kjósenda á öllum aldri.