Vefþjóðviljinn 50. tbl. 19. árg.
Enn er glamrað með þá kenningu að Steingrímur J. Sigfússon, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hóf til valda í lok janúar 2009, hafi ekki staðið rétt að „einkavæðingu“ nýju bankanna síðar það ár. Sagt er að nýju bankarnir hafi verið afhentir eigendum gömlu bankanna við lágu verði.
En hverjar voru eignir nýju bankanna? Jú það voru eignir sem færðar voru úr gömlu bönknum.
Er yfirleitt hægt að selja manni eigur hans sjálfs á of lágu verði?
Í skýrslu Brynjars Níelssonar alþingismanns til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir:
Á grundvelli neyðarlaganna ákvað FME að stofna þrjá nýja banka (hlutafélög) og voru innlán og innlend lánasöfn, sem voru eignir kröfuhafa föllnu bankanna, færð yfir í þá nýju.
Er eitthvað erfitt að skilja það að lánasöfnin voru í eigu kröfuhafanna hvort sem þau voru hýst í nýju eða gömlu bönkunum?
Alveg er það dæmigert að hér er mikið uppnám yfir því að réttmætum eigendum hafi verið afhentir Arionbanki og Íslandsbanki.
En enginn spyr hví í ósköpunum ríkissjóður Íslands sitji uppi með nýja Landsbankann. Hvers vegna var hann þjóðnýttur? Var það ekki einn angi Icesave málsins?