Vefþjóðviljinn 43. tbl. 19. árg.
Á dögunum var þess getið á þessum vettvangi að Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA) telur eyðslu í bílvélum aukast um 4% þegar bensín er blandað 10% með etanóli. EPA segir að bensínlítrinn hafi helmingi hærra orkuinnihald en lítri af etanóli. Eyðslan eykst því eðlilega við etanólíblöndunina. Minni orka þýðir fleiri ferðir á bensínstöðvarnar.
En er þetta er ekki bara eitthvað rugl frá Ameríku? Jafnvel bara eitthvað sem galnir hægri menn þar hafa sagt?
Gilda sömu náttúrulögmál nokkuð hér í gömlu góðu Evrópu? Hefur ekki sjálf Orkustofnun íslenska ríkisins lýst því yfir að orkuinnihald etanóls sé bara „ívið lægra“ en bensíns? Og var ekki verið að setja lög hér sem þröngva olíufélögum til að blanda etanóli eða jafnvel metanóli í bensín í þágu umhverfisins? Getur verið að svona græn löggjöf skyldi menn til að nota eldsneyti sem eykur eyðslu í bílvélum?
Í reglugerð með þessum fínu lögum er skilgreint hvert orkuinnihald eldsneytistegunda er.
Þar kemur fram að orkuinnihald lítra af hreinu bensíni sé 32 MJ/L (megajoule á lítra), orkuinnihald etanóls sé 21 MJ/L og metanóls 16 MJ/L.
Nú þegar það hefur verið leitt í íslensk lög að bensínlítrinn hefur 52% hærra orkuinnihald en etanóllítrinn er Orkustofnun íslenska ríkisins alveg viss um að hún standi við þá staðhæfingu sína að orkuinnihald etanóls sé aðeins „ívið lægra“ en orkuinnihald bensíns?