Vefþjóðviljinn 35. tbl. 19. árg.
Ögmundur Jónasson þingmaður vinstrigrænna er lítill stuðningsmaður einkaeignarréttar. Nær væri að segja að hann sé opinber andstæðingur einkaeignarréttar.
Einkaeignarréttur er einn örfárra grundvallarmannréttinda. Rétturinn til að eiga eignir, geta nýtt eignir sínar og ráðstafað þeim. Þetta eru grundvallarmannréttindi.
Fyrir nokkrum árum var Ögmundur Jónasson gerður að innanríkisráðherra. Það ráðuneyti annast eignarréttarmál, mannréttindi og löggæsluna svo dæmi séu tekin.
Enginn heyrðist nefna að skoðanir Ögmundar á slíku mannréttindamáli sem einkaeignarréttur er, sem hann hafði látið í ljós opinberlega, gerðu það að verkum að hann mætti ekki verða ráðherra málaflokksins. Ekki datt Vefþjóðviljanum í hug að halda því fram, eða átelja vinstrigræna sérstaklega fyrir að velja Ögmund sem ráðherra. Raunar stóð hann sig betur en flestir samráðherra sinna í þáverandi ríkisstjórn, en samkeppnin var ekki grjóthörð.
Menn ættu að bera saman viðbrögðin við því þegar maður, sem líklega má segja að sé opinber andstæðingur einkaeignarréttar, varð ráðherra mannréttindamála, og svo þeirra sem urðu þegar „framsóknarmenn og flugvallarvinir“ tilnefndu Gústaf Níelsson sagnfræðing sem varamann í valdalaust umræðuráð sem vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn stofnaði fyrir nokkrum árum í borgarkerfinu.
Gústaf hafði sett fram rangar skoðanir á tilteknum málaflokki, og því þótti algert hneyksli að hann yrði varamaður í ráðinu. Einhver hefði kannski haldið að skoðanir hinna ráðsmannanna væru svo góðar að þær þyldu alveg að einn varamanna ráðsins hefði öndverða skoðun, en það var víst ekki svo.
Sterkustu viðbrögðin komu frá þeim sem þegar voru þeirrar skoðunar að „framsóknarmenn og flugvallarvinir“ hefðu náð kjöri í borgarstjórn með því að höfða til fólks með óboðlegar skoðanir. En samt fannst þeim óeðlilegt að maður, sem þeim finnst hafa óboðlegar skoðanir, yrði fulltrúi þessara kjósenda.