Vefþjóðviljinn 27. tbl. 19. árg.
Það er mikilvægt, eins og gert hefur verið víða um heim í dag, að minnast þeirra sem létu lífið í í Auschwitz.
Fyrir nokkrum árum kom út bók á íslensku um vist ungs manns í búðunum. Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá henni enda hlýtur hún að hafa mikil áhrif á alla þá sem hana lesa.
Í bók sinni Nótt fjallar gyðingurinn Elie Wiesel um þá martröð sem hann upplifði þegar hann og fjölskylda hans voru tekin höndum og flutt í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz og Buchenwald. Þar var hann þar til Bandaríkjamenn komu í apríl 1945 en fjölskylda hans var ekki eins heppin, ef tala má um heppni í því sambandi. Mörgum árum síðar, hafði hann að einhverju leyti náð að horfast í augu við reynslu sína og skrifaði í framhaldi þessa sjálfsævisögulegu bók, sem hefur náð metsölu víða um heim.
Vitanlega er langt í að hryllingurinn sem lagður var á gyðinga á fjórða og fimmta áratugnum gleymist, en þess þarf að gæta að komandi kynslóðir viti hvað fram fór. Þeir sem stóðu fyrir ofsóknunum voru ekki einhverjar illar verur af öðrum hnetti, heldur menn af holdi og blóði, menn sem í upphafi voru kannski ekkert verri en hverjir aðrir. En þegar nógu lengi er alið á hatri, þegar ofstækið veður uppi, þá getur aftur farið eins og þá fór. Þegar tekst að koma því inn hjá nógu mörgum að erfiðleikar þeirra séu einhverjum tilteknum öðrum hópi að kenna, þegar tekst að búa til stigvaxandi almenningsálit sem fyrst lætur minniháttar eignaspjöll og ofbeldi gegn þessum afmarkaða hópi viðgangast, þegar stjórnvöld fara næst að hvetja til ofbeldis og eignaupptöku og loks taka fullan þátt í því sjálf, þá er aldrei að vita á hvaða stig illskan getur komist.
Meðal annars þess vegna mega menn aldrei gleyma þessari skelfilegustu mynd skipulagðs ofbeldis sem mannkynið hefur náð að beita sjálft sig. Og þær milljónir manna sem þarna voru myrtar, af ekki bara ráðnum hug heldur óhugnanlegri skipulagningu og nákvæmni, eiga það líka skilið að örlaga þeirra sé minnst. Í viðauka fylgir ræða sú er Wiesel flutti er hann tók við friðarverðlaunum Nóbels.