Vefþjóðviljinn 26. tbl. 19. árg.
Nú styttist í gerð kjarasamninga á svonefndum almennum vinnumarkaði. Þá vaknar jafnan krafa til ríkisins að „koma að málinu“ og „greiða fyrir samningum“. Stundum eru stjórnvöld fengin til að lofa einhverju jákvæðu, eins og lækkun skatta, eða einhverju öðru, eins og aukningu einhverra opinberra útgjalda í skammtímaþágu annars eða beggja samningsaðilainna.
Í grein í Morgunblaðinu í síðustu viku vakti Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, athygli á því að svo virtist sem sveitarfélögin slyppu yfirleitt frá öllum slíkum kröfum, þótt þau væru mjög fyrirferðarmikil í álögum á borgarana. Benti Óli Björn meðal annars á að tekjur sveitarfélaganna af útsvari væru um þriðjungi hærri en tekjur ríkisins af tekjuskatti.
Ef sveitarfélögin myndu lækka útsvar á íbúa sína fælist í því veruleg kjarabót fyrir hvern vinnandi mann.
Langflest sveitarfélög í landinu innheimta hámarksútsvar af íbúum sínum. Hingað til segja sveitarstjórnarmenn yfirleitt að það sé ekki hægt að lækka útsvar, en hins vegar reynist yfirleitt vera hægt að stækka íþróttavöllinn, byggja stúku og stofnsetja lýðræðisráð og mannréttindanefndir. En hugsanlega eru einhverjir þeirra byrjaðir að efast um háskattastefnuna. Í Morgunblaðinu um síðustu helgi sagði Halldór Halldórsson, formaður Samtaka sveitarfélaga, að hann væri „sannfærður um að tækifæri eru til þess hjá enn fleiri sveitarfélögum að lækka útsvar. Slíkur tónn heyrðist á tveimur síðustu fjármálaráðstefnum sveitarfélaganna. Við höfum náð tökum á fjármálunum og byrjuð að lækka skuldir. Næsta verkefnið er að lækka álögur, en auðvitað er þetta misjafnt eftir sveitarfélögum.“
Halldór Halldórsson er ekki aðeins formaður Samtaka sveitarfélaga heldur einnig borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Sem slíkur getur hann gefið fordæmi, sem eftir yrði tekið. Hvernig væri nú að sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins tækju höndum saman, hvar sem þeir eru á landinu, og legðu allir sem einn til lækkun útsvars í sínu sveitarfélagi? Þar mætti til dæmis byrja á hálfu prósenti á hverjum stað. Jafnvel slík lækkun myndi strax auka ráðstöfunartekjur vinnandi manna.