Helgarsprokið 25. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 25. tbl. 19. árg.

Komist Sjálfstæðisflokkurinn til valda á ný, einn eða með fulltingi fylgdarflokks síns, Framsóknarflokksins, er þess að vænta að fóstureyðingar verði bannaðar, undantekningarlaust. - skrifaði Guðmundur Andri Thorsson, úrvals pistlahöfundur Fréttablaðsins, fyrir tveimur árum.
Komist Sjálfstæðisflokkurinn til valda á ný, einn eða með fulltingi fylgdarflokks síns, Framsóknarflokksins, er þess að vænta að fóstureyðingar verði bannaðar, undantekningarlaust. – skrifaði Guðmundur Andri Thorsson, úrvals pistlahöfundur Fréttablaðsins, fyrir tveimur árum.

Fjölmiðlar skipta ekki minna máli í Bandaríkjunum en öðrum lýðræðisríkjum. Þar vestra hafa demókratar lengi haft mjög sterka stöðu á fjölmiðlunum og það skipt verulegu máli fyrir þá í kosningum. Í Bandaríkjunum, eins og víða annars staðar, tíðkast að dagblöð lýsi yfir stuðningi við einstaka flokka eða frambjóðendur í kosningum. Þannig hefur The New York Times lýst yfir stuðningi við hvern einasta forsetaframbjóðanda demókrata síðustu sextíu árin. Íslenskir fréttamenn nefna blaðið undantekningarlítið „stórblaðið New York Times“.

Sjónarmið demókrata hafa mjög átt upp á pallborðið hjá stórum hluta bandarískra fjölmiðlamanna og hafa kannanir bent til þess að dæmigerður bandarískur fjölmiðlamaður sé mun vinstrisinnaðari en dæmigerður Bandaríkjamaður, þótt auðvitað verði að taka niðurstöðum skoðanakannana með fyrirvara. Ekki þarf að koma á óvart að þetta hafi áhrif á það hvernig útbreiddustu fjölmiðlar Bandaríkjanna fjalla um stjórnmál.

Bandarískar sjónvarpsstöðvar hafa lengi hallast til vinstri. Það hefur vinstrimönnum að sjálfsögðu almennt líkað vel, enda algengt að þeir telji fjölmiðla þeim mun vandaðari sem heimsmynd fjölmiðilsins fer nær heimsmynd þeirra sjálfra. Íslenskir vinstrimenn telja gjarnan að Ríkisútvarpið sé vandaður og hlutlaus fjölmiðill. Menn þurfa ekki að hlusta lengi á umræður á Alþingi til að heyra hversu ómetanlegt Ríkisútvarpið er fyrir vígstöðu vinstrimanna, enda lögðu þeir höfuðáherslu á að hræða forystu stjórnarflokkanna til að stórhækka opinber framlög til stofnunarinnar við síðustu fjárlagaumræðu, og unnu þar mikinn sigur við afgreiðslu fjárlaga í vetur.

Dæmigerðir bandarískir og evrópskir vinstrimenn sjá ekkert að því að sjónvarpsstöðvar dragi taum vinstrimanna. En þeir sjá margt að því ef þær gera það ekki. Haustið 1996 var stofnuð sjónvarpsstöðin Fox News, þar sem ekki eru aðeins sendar út fréttir heldur einnig umræðuþættir þar sem þáttastjórnendur gangast fúslega við því að hafa skoðun á umræðuefnunum, og margir þeirra gagnrýna vinstrimenn harðlega.
Skoðun dæmigerðra bandarískra og evrópskra vinstrimanna á þessari sjónvarpsstöð er einföld. Þeir leggja algera fæð á hana. Á sama tíma virðast þeir margir óttast áhrif hennar, því þá langar mikið til að draga úr trúverðugleika hennar.

Skemmtilegt og fróðlegt dæmi um ofsann sem grípur þá vinstrimenn, sem vilja helst ekki að aðrir en vinstrimenn stjórni fjölmiðlum, birtist á dögunum þegar álitsgjafi, sem Fox News talaði við, hafði greinilega gert sér ýkta mynd af áhrifum íslamista í Evrópu, einkum Birmingham á Englandi. Þetta fannst vinstrisinnuðum fjölmiðlamönnum greinilega eins og mikill happdrættisvinningur. Af þessu voru sagðar ítrekaðar fréttir í marga daga og ákefðin gekk svo langt að borgarstjórinn í París, sem er fulltrúi sósíalista, mun hafa boðað að borgin fari í mál við sjónvarpsstöðina, því þar mun einnig hafa verið sagt í borginni væru hverfi sem yfirvöld hættu sér ekki inn í, eða eitthvað í þá veru.

Það mátti næstum halda að þarna hefði það í fyrsta sinn gerst að viðmælandi, sem fjölmiðill leitar til af því hann er talinn hafa vit á einhverju máli sem er í fréttum, fari með fleipur. Aldrei fyrr hefði það gerst að einhver slíkur „sérfræðingur“ léti frá sér staðhæfingu sem reyndist verulega ýkt frá raunveruleikanum. Aldrei fyrr hefði það gerst að sjónvarpsstöð, sem sendir út fréttir og umræður allan sólarhringinn, segði eitthvað sem reyndist rangt. Engu breytir þótt bæði „sérfræðingurinn“ og sjónvarpsstöðin hafi dregið allt til baka og beðist afsökunar.

Ætli viðbrögðin hefðu orðið önnur ef þetta hefði gerst á einhverjum öðrum fjölmiðli en þeim sem vinstrimenn Vesturlanda hafa sem mest á heilanum? Ætli Parísarborg hefði líka boðað málshöfðun á hendur New York Times eða Guardian, ef einhvern tímann gerðust þau stórmerki að þar birtust rangar neikvæðar fullyrðingar?

Eða svo dæmi sé tekið frá Íslandi. Í september 2012 skrifaði Guðmundur Andri Thorsson eina af sínum vikulegu greinum í Fréttablaðið, þar sem hann er fastur höfundur, valinn af blaðinu sjálfu. Þar fullyrti hann:

Komist Sjálfstæðisflokkurinn til valda á ný, einn eða með fulltingi fylgdarflokks síns, Framsóknarflokksins, er þess að vænta að fóstureyðingar verði bannaðar, undantekningarlaust, enda hafa talsmenn hins bandaríska móðurflokks bent á að líkami kvenna sé þannig af Guði gerður að nauðganir leiði ekki til þungunar. Víst má telja að bönnuð verði hjónabönd samkynhneigðra og Gay Pride-gangan kannski ekki bönnuð – þegar flokkurinn nær borginni aftur – en færð upp í Norðlingaholt, á þriðjudegi milli klukkan níu og tíu á morgni, einhvern tímann í miðjum febrúar. Í skólum landsins, þessum fáu sem ekki eru einkaskólar handa ríku börnunum, verður skylt að kenna ekki bara tilgátu Darwins um þróun lífsins heldur líka sköpunarsögu Biblíunnar eins og Guð lét skrá hana. Og er þá fátt eitt talið.

Hafa margir íslenskir fjölmiðlar séð ástæðu til að gera frétt um þessar fullyrðingar Guðmundar Andra? Hafa margir álitsgjafar talið þær til marks um að Fréttablaðið sé ofstækisblað? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið í mál? Getur kannski verið að margir þeirra, sem eru hneykslaðir á vitleysingunum sem fullyrtu á Fox, séu í hverri viku hæstánægðir með Guðmund Andra og Fréttablaðið?

Það er auðvitað ekki rétt að Birmingham sé orðin almúslimsk eða að í París séu hverfi sem lögreglan þorir ekki inn í. Það er þó ekki eins mikið rugl og að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ætli að banna fóstureyðingar.