Vefþjóðviljinn 24. tbl. 19. árg.
Nú fagnar Vefþjóðviljinn loks sjálfræði sínu.
Það er tveimur árum seinna en vænst var við upphaf útgáfunnar 24. janúar 1997.
Þessi töf skrifast eins og svo margt annað á „frjálshyggjuárin fyrir hrun“, þarna þegar allar reglur voru sagðar rýmkaðar sem ekki voru beinlínis afnumdar. Þá voru allir á barnsaldri og ófæddir sviptir sjálfræði um tvö ár og sjálfræðisaldurinn hækkaður úr 16 í 18.
Kannski kemur það einhverjum á óvart en á þessum 18 árum hefur fátt styrkt útgefendur Vefþjóðviljans frekar til skrifa um nauðsyn friðar og frelsis fyrir hvern mann en einmitt bankahrunið á Vesturlöndum á árunum 2007 til 2009, bæði aðdragandi og afleiðingar þess.
Engin atvinnugrein býr við jafn ofboðsleg ríkisafskipti og fjármálakerfið. Lög og reglur um fjármálastarfsemi eru á þúsundum blaðsíðna, stórar eftirlitsstofnanir ríkisins vaka yfir greininni, ríkið gefur út gjaldmiðlana, stýrir vöxtum og lofar jafnvel viðskiptavinum fjármálastofnana að bæta tjón sem verði af þroti þeirra með innstæðutryggingum. Opinberir íbúðalánasjóðir og vaxtabótakrefi hvetja almenning til skuldsettningar. Svo bætast við hinar óskrifuðu reglur að stjórnarmálamennirnir þora sjaldnast að láta stór fjármálafyrirtæki leggja upp laupana en senda almenningi heldur reikning fyrir björgun þeirra, með seðlaprentun og verðbólgu eða beinni skattheimtu.
Eitt var að horfa á þetta kerfi ríkisafskipta og rangra hvata hrynja ofan á almenning. Hitt er þó öllu verra að því hefur í engu verið breytt eftir ósköpin.
Um stund er því gild ástæða til að halda þessum skrifum áfram.
Um leið er þeim góða hópi sem styrkt hefur útgáfuna með fjárframlagi á liðnum árum þökkuð liðveislan. Þeir sem vilja slást í hópinn geta gert það með einföldum hætti hér.