Vefþjóðviljinn 23. tbl. 19. árg.
Svo ótrúlega vildi til að örskömmu áður en Barack Obama flutti ávarp sitt fyrir báðum deildum Bandaríkjaþings, þar sem hann boðaði frumvörp um sérstaka skatta á þá ríkustu, því ójöfnuðurinn hefði aukist svo mikið, birtu bandarískir fjölmiðlar splunkunýjar tölur um dreifingu eigna. Niðurstaðan var þar sú að þeir, sem áttu ofboðslega mikið í skráðum eignum, voru miklu miklu fleiri en þeir sem áttu lítið sem ekkert í skráðum eignum. Þetta kom auðvitað þeim mjög á óvart sem höfðu talið að þetta væri einmitt öfugt.
Íslenskir fréttamenn og álitsgjafar hafa nú hafið sömu umræðu hér. Um hana segir Einar S. Hálfdánarson löggiltur endurskoðandi meðal annars í grein í Morgunblaðinu í morgun:
Ungur piltur var með fyrstu frétt í sjónvarpi RÚV sem svo hefur slegið í gegn og verið rækilega fylgt eftir þar á bæ. Samkvæmt fréttinni eiga 10% Íslendinga 75% eignanna. Þessa dagana er RÚV í boði okkar sjálfstæðismanna og trúboðið er sem aldrei fyrr. Hann fór yfir eignaskiptingu landsmanna sem er misjöfn líkt og annars staðar. Auðvitað gat hann ekki stillt sig um rangfærslur. Hann sagði öll verðbréf metin til verðs á nafnvirði sem er auðvitað reginfirra.
Á misjafnri eignaskiptingu eru auðvitað margar eðlilegar skýringar. Hún getur aldrei orðið jöfn. Flestallir byrja með tvær hendur tómar og efnast eitthvað með aldrinum. Aldur skýrir því misjafna eignaskiptingu að töluverðu leyti. Skuldir eru skráðar á uppreiknuðu verði með áföllnum verðbótum. Sumar skuldir verða aldrei greiddar að fullu, t.d. námslán þar sem endurgreiðslur fara eftir tekjum. Jafngildi tveggja þriðju hluta útlána LÍN falla því t.d. sem kostnaður á ríkissjóð. Fasteignir eru metnar á fasteignamatsverði. Því eru eignir hins venjulega íbúðareiganda vanmetnar. Skartgripir, listmunir, innbú o.s.frv. koma hvergi til álita. Svo má áfram halda.
Ríkasta prósentið er væntanlega atvinnurekendur. Atvinnutækin eru skráð á þeirra nafn og því betur sem þeim gengur, þeim mun betur vegnar okkur hinum. Hagnist þeir geta þeir borgað hærra kaup. Hvorki borða þeir skipin né hugbúnaðinn; sem sé neysla og ríkidæmi er fjarri því að vera það sama. Hverjum dettur í hug að 10% Íslendinga eyði 75% þjóðarframleiðslunnar? Tölfræði af þessum toga hefur afskaplega lítið upplýsingagildi.
En því er ekki að neita að margt er gert til þess að styðja við bakið á efnamönnum. Þannig ákvað evrópski seðlabankinn, sem prentar evrurnar, að byrja nú að prenta svo um munar. Hann ætlar að „prenta“ jafnvirði um tíu þúsund milljarða íslenskra króna á hverjum einasta mánuði fram á haustið 2016. Þessa peninga á að nota til að kaupa verðlitlar eignir af fjármálastofnunum í öllum evrulöndunum. Þannig að í stað þess að þeir bankar, sem keypt hafa eignir sem orðnar eru verðlitlar, sitji sjálfir uppi með það tjón, eða hluthafar þeirra, þá eru prentaðar ótrúlegar upphæðir af nýjum evrum og þær settar í umferð.
Raunar hafa flestar aðgerðir „til að blása lífi í evrusvæðið“ undanfarin ár snúist um að bjarga bankamönnum á kostnað skattgreiðenda.
Það vill svo merkilega til að þeir sem mest tala um ógnir misskiptingarinnar eru flestir einnig mjög ákafir að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.