Vefþjóðviljinn 12. tbl. 19. árg.
Síðustu daga hefur talsvert verið talað um tjáningarfrelsið. Það sé Vesturlandabúum heilagt. Ofstækismenn skuli ekki komast upp með að vega að því. Það skuli aldrei gerast að menn megi ekki teikna skrípamyndir af hverju sem er, jafnvel mjög ógeðfelldar af einhverju sem öðru fólki er heilagt. Við gefum nefnilega engan afslátt af tjáningarfrelsinu.
Auðvitað er skiljanlegt að fyrstu viðbrögð manna eftir voðaverk eins og þau sem unnin voru í Frakklandi í síðustu viku, séu sterk. Rétt eins og voðaverkin í Pakistan í síðasta mánuði þar sem illmenni ruddust inn í skóla og myrtu 132 börn og 13 fullorðna, eins og flestum er enn í fersku minni. En hvernig er með hið heilaga tjáningarfrelsi á Vesturlöndum?
Fyrir nokkrum árum gerðist það að íslenskur sjómaður lýsti í blaðaviðtali þeirri undarlegu skoðun sinni að svartir íbúar Afríku væru latari en aðrir. Rökstuddi hann þetta með því að heimsálfan væri mjög rík af náttúruauðlindum og allar aðstæður hinar blómlegustu en samt væri fátækt og hungur í flestum löndum hennar. Það sýndi auðvitað að íbúarnir hefðu ekki dugnað til að bjarga sér en vildu frekar fá erlenda aðstoð. Fyrir að láta þessa skoðun sína í ljós opinberlega var maðurinn ákærður og dæmdur.
Ekki er vitað til þess að nokkur þingmaður hafi hugleitt að leggja til að það ákvæði hegningarlaga sem maðurinn var dæmdur fyrir að brjóta, verði afnumið. Það ákvæði leggur allt að tveggja ára fangelsi við því meðal annars að hæðast að öðrum eða smána aðra vegna „þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar“ þeirra. Þetta lagaákvæði er svo lifandi í huga þingmanna að á síðasta ári samþykktu þeir sérstakt lagafrumvarp sem bætti orðinu „kynvitundar“ inn í upptalninguna.
En hvað ef sjómaðurinn sæi að sér og skrifaði blaðagrein þar sem hann drægi allt til baka. Ef hann segðist nú telja Afríkumenn fyrirmynd annarra og ef hann hitti einhvern þeirra á götu þá myndi hann þegar í stað bjóða honum að reykja með sér einn London Docks vindil, sem hann teldi bestu vindlategund í heimi. Ætli hann yrði ekki ákærður aftur?
Samkvæmt íslenskum lögum, tóbaksvarnarlögum, er bönnuð „hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra“. Þetta lagaákvæði var sett fyrir fáum árum.
Ekki er vitað um nokkurn þingmann sem hefur lagt til að þetta bann verði fellt úr lögum. Á Íslandi er því hvers konar umfjöllun um einstakar tóbakstegundir bönnuð. Nema auðvitað menn ætli að vara við tegundinni. Þá mega þeir auðvitað tjá sig.