Laugardagur 3. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 3. tbl. 19. árg.

Ekki er að því að spyrja. Nú er afnám almennra vörugjalda orðið að sérstöku vandamáli sem verkalýðs- og neytendaforstjórar vilja opinbert eftirlit með.
Ekki er að því að spyrja. Nú er afnám almennra vörugjalda orðið að sérstöku vandamáli sem verkalýðs- og neytendaforstjórar vilja opinbert eftirlit með.

Stjórnmálamanna er oft freistað með tilboðum um að skakka leikinn, herða reglur og auka eftirlit. Í hvert sinn sem grunur er um að eitthvað bjáti á einhvers staðar mæta fjölmiðlamenn með hljóðnemana og spyrja til hvaða aðgerða eigi að grípa, hvort regluverkið sé nægilega þétt og hvort ekki þurfi að efla eftirlitið.

Nú er mikið þjóðfélagsvandamál í uppsiglingu því almenn vörugjöld voru afnumin um áramótin og þótt það hafi verið almennt mat verkalýðsforkólfa og neytendafrömuðir að almenningur keypti nánast aldrei óþarfa eins og þá 800 vöruflokka sem báru vörugjöldin hafa þeir nú miklar áhyggjur af því að kaupmenn muni í raun ekki fella vörugjöldin niður heldur stinga þeim í vasann sem aukinni álagningu.

Og þegar slíkar áhyggjur heyrast eru fréttamennirnir fljótir á vettvang. Hvaða ráðherra skyldi nú bera ábyrgð á því að kaupmenn gæti hófs í álagningu?

Ólöf Nordal innanríkisráðherra er með Neytendastofu á sinni könnu og hún var því spurð í sjónvarpsfréttum í kvöld hvernig mæta ætti þeirri þjóðarvá sem niðurfelling vörugjalda er orðin.

Það var því kærkomin tilbreyting að heyra ráðherrann segja að opinbert verðlagseftirlit yrði ekki aukið að þessu tilefni enda myndi það á endanum koma niður á þeim fyrirtækjum sjálfum sem ekki lækkuðu verð sem næmi vörugjöldunum. Hins vegar væri sjálfsagt og æskilegt að neytendur fylgdust vel með verðlagi nú sem fyrr.

Já þótt þau ágætu sannindi að kúnninn hafi alltaf rétt fyrir sér hafi troðist undir í búsáhaldabyltingunni um árið er engin ástæða til að ætla þau séu fallin úr gildi. Kaupmenn sem okra að viðskiptavinum sínum þurfa fyrr en varir að leita sér að öðru starfi.