Vefþjóðviljinn 361. tbl. 18. árg.
Gylfi Magnússon lektor og fyrrum viðskiptaráðherra hreinu vinstri stjórnarinnar skrifaði grein í Kjarnann í fyrradag um hina svonefndu leiðréttingu húsnæðislána.
Það er rétt sem Gylfi segir í greininni í Kratanum að notkun orðsins leiðrétting er ekki mjög lýsandi fyrir þessi 80 milljarða króna ríkisútgjöld. Enginn hefur sýnt fram á að verðtryggðar skuldir fólks hafa verið rangt reiknaðar. Þær fylgdu einfaldlega verðlagsþróun eins og samið var um í upphafi. Verðlagsþróun á árunum 2008 til 2009 telst heldur vart til óvæntra tíðinda í íslensku efnahagslífi.
Á meðan ríkissjóður er stórskuldugur eru aukin ríkisútgjöld af þessu tagi að mestu leyti millifærsla frá skattgreiðendum framtíðar til þiggjenda útgjaldanna. Ekki verður með góðu móti séð að þeir sem ráða ferðinni nú um stundir þurfi að rétta hlut sinn á kostnað afkomenda sinna.
En ef Gylfi vill ekki að ríkissjóður taki ábyrgð á tugmilljarða skuldum íslenskra húseigenda án gildrar ástæðu hvers vegna átti ríkissjóður að gangast í ábyrgð fyrir Icesave skuldum Landsbankans að ósekju?