Vefþjóðviljinn 341. tbl. 18. árg.
Bjarni Jónsson athafnamaður ritaði hrollvekjandi grein í Fréttablaðið í fyrradag. Þar lýsir hann hvernig ríkisvaldið hefur þanist út með ógvekjandi hraða undanfarna þrjá áratugi, þó með markverðu hléi á árunum 1991 til 1998.
Í öllum hinum vestræna heimi hafa útgjöld hins opinbera aukist á liðnum áratugum með svipuðum hætti og á Íslandi, eins og um náttúrulögmál sé að ræða.
Aukningin er mest í öðru en grunnstoðum samfélagsins. Nýjar stofnanir, stofur og sjóðir eru settir á fót sem sífellt krefjast meira fjármagns. Opinber útgjöld hækka án þess að við finnum mikið fyrir því, en safnast upp eftir því sem árin og áratugir líða.
Bjarni bendir á að lutfall af vergri landsframleiðslu hafa útgjöldin aukist úr 34% 1980 í 44% 2013. Ríkisvaldið tekur þannig sífellt stærri bita af þjóðarkökunni þótt kakan sjálf stækki flest ár.
Eftir því sem opinber útgjöld aukast dregur úr mætti og nýsköpun efnahagslífsins. Gömul stórfyrirtæki verða allsráðandi. Til að örva atvinnulífið vilja vinstri menn veita skattfé til atvinnulífsins í gegnum sjóði, undir slagorðum eins og græna hagkerfið og skapandi greinar. Engum dettur í hug að létta skattbyrðar á fyrirtæki og einstaklinga almennt, þó að til lengri tíma litið skilaði það þróttmeira atvinnulífi, hærri launum og meiri skatttekjum.
Og eins og ofangreint sé ekki nægt áhyggjuefni varpar Bjarni því einnig fram að vonlaust sé að vinda ofan þessu ástandi.
Því miður eru engin ráð til. Baráttan er töpuð. Að vinda ofan af opinbera kerfinu er pólitískt ekki hægt. Ein hugmynd sem myndi virka væri að svipta ríkisstarfsmenn atkvæðisrétti vegna hagsmunatengsla. Slíkar hugmyndir hafa þó varla hljómgrunn. Við munum, eins og öll vestræn ríki, sigla hægt en örugglega í algjöra stöðnun. Mörg Evrópusambandsríki eru komin langt á þeirri vegferð, Bandaríkin heldur styttra. Það mun gerast hjá okkur eftir 20-30 ár.
Já er ekki hugsanlegt að ríkið sé orðið svo stórt, starfsmenn þess svo margir, að hagsmunirnir af því að viðhalda kerfinu séu orðnir svo sterkir að vart fáist við þá ráðið? Það hefur lengi verið áhyggjuefni frjálslyndra manna hvernig hagsmunahópar sækjast eftir fyrirgreiðslu og sérréttindum með atbeina ríkisvaldsins. Nú þegar ríkisvaldið hefur sölsað nær helming verðmætasköpunar í landinu undir sig er það áleitin spurning hvort snjóboltinn hafi hlaðið svo utan á sig að hann verði ekki stöðvaður.