Laugardagur 6. desember 2014

Vefþjóðviljinn 340. tbl. 18. árg.

Þjónusta og viðhald í þjóðgörðum er ekki ókeypis. Er ekki rétt að þeir greiði sem helst nýta þjónustuna?
Þjónusta og viðhald í þjóðgörðum er ekki ókeypis. Er ekki rétt að þeir greiði sem helst nýta þjónustuna?

Það er rétt sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra skrifar í Morgunblaðið í dag að það sé „eitt mikilvægasta verkefni okkar Íslendinga um þessar mundir er að finna leið til að fjármagna uppbyggingu og verndun okkar vinsælustu ferðamannastaða.“

Þessi kostnaður hverfur ekki þótt Guðmundur Andri skrifi um fjalldrapa og blóðberg eða Birgitta og Steingrímur hóti því að fara ekki að lögum fái þau ekki að skrifa þau sjálf.

Ráðherrann bendir jafnframt á að nú greiði íslenskir skattgreiðendur nær allan kostnað við rekstur þjóðgarða en erlendir ferðamenn nær ekkert. Ef innheimt væri gjald myndu erlendir ferðamenn standa undir allt að 90% af kostnaði við verndun og viðhald staðanna.

Þegar menn leggja þennan skilning og forsendur til grundvallar ætti ekki að vera nein ástæða til að hengja sig í miðstýringarhugmyndir á borð við einn náttúrupassa fyrir alla staðina og að staðirnir þurfi svo að sækja um styrki í risavaxinn opinberan sjóð með því kjördæmatogi og hagsmunapoti sem óhjákvæmilega fylgir. Sá galli er á hugmyndum eins og náttúrupassanum að honum fylgja engir möguleikar á að dreifa álagi með mismunandi gjaldtöku eftir svæðum og tíma.

Stjórnarandstaðan virðist hins vegar einkum andvíg náttúrupassanum á þeirri forsendu að gjaldtakan lendi aðeins á þeim sem ætla að nýta sér þjónustu þjóðgarðanna! Svo virðist sem stjórnarandstaðan vilji bara enn einn skattinn – komugjald eða gistináttagjald – og svo verði úthlutað úr enn einum opinbera sjóðnum.