Föstudagur 5. desember 2014

Vefþjóðviljinn 339. tbl. 18. árg.

Baráttan gegn Icesave-samningunum, var barátta gegn því að setja ríkisábyrgð á skuldir Landsbankans, en ekki að Landsbankinn greiddi skuldir sínar.
Baráttan gegn Icesave-samningunum, var barátta gegn því að setja ríkisábyrgð á skuldir Landsbankans, en ekki að Landsbankinn greiddi skuldir sínar.

Stjórnvöld hafa ákveðið að heimila greiðslu á um fjögur hundruð milljörðum króna í erlendum gjaldeyri til kröfuhafa gamla Landsbankans. Samfylkingin hefur þegar lýst stuðningi við ákvörðunina.

Frá því hefur verið sagt í fréttum að stór hluti fjárhæðarinnar fari til að greiða skuld bankans vegna Icesave-reikninganna, og hefur sums staðar mátt lesa að sú staðreynd sé merkileg í ljósi þess að því hafi verið haldið fram að Íslendingar þyrftu ekki að borga Icesave-skuldina.

Auðvitað var ekkert athugavert við að Icesave-skuldin yrði greidd. Það er að segja, að eignir gamla Landsbankans færu til þess að greiða þessa skuld eða aðrar sem bankinn skuldaði. Fyrrverandi ríkisstjórn, flestir þingmenn hennar, forsvarsmenn atvinnulífsins, ótal hagfræðingar og prófessorar að ógleymdum þeim í Efstaleiti 1, börðust hins vegar fyrir því að þessi skuld yrði sett á herðar skattgreiðenda. Það var það sem menn börðust gegn. Ekki að Landsbankinn greiddi skuldir sínar.

Þegar sú barátta stóð drógu menn sjaldan af sér í Efstaleiti 1. Þar var iðulega talað um „Icesave-skuldina“, þegar reynt var að telja landsmönnum trú um að Íslendingar skulduðu Bretum og Hollendingum stórfé. Þegar rétt hefði verið að tala um Icesave kröfurnar talaði Ríkisútvarpið iðulega um Icesave-skuldina.

Það er mikið vandamál hvernig menn nota villandi orð í opinberri umræðu. Þegar talað var um Icesave-skuld ríkisins eða Icesave-skuld Íslendinga, var auðvitað verið að villa fólk. Annað dæmi um villandi orð er „leiðrétting“, sem menn hafa í vaxandi mæli notað um óskir um bætt kjör. Við krefjumst launaleiðréttingar, segja menn í kjaraviðræðum þótt enginn starfsmaður fái röng laun. Menn vilja bara fá hærri laun. Lækkun húsnæðisskulda er nú kölluð sama nafninu. Þar væri auðvitað hlutlaust að tala um lækkun lána.

Fréttamenn ættu að reyna að gæta sín á villandi orðnotkun eins og þessari. Næst þegar einhver vill fá „launaleiðréttingu“ ætti að spyrja hann hvort starfsmenn fái almennt röng laun útborguð. Næst þegar einhver hrósar sér af Leiðréttingunni ætti að spyrja hann hvort fasteignalánin hafi verið rangt reiknuð áður. Næst þegar einhver vill fá „réttlæti“ ætti að spyrja hann hvert óréttlætið sé nákvæmlega. Er það bara það að eitthvað hentar þér illa? Kröfur um hærri laun, bætta aðstöðu, breyttar reglur, geta verið skiljanlegar og eðlilegar. En það er ekki þar með sagt að þær séu leiðrétting .