Þriðjudagur 2. desember 2014

Vefþjóðviljinn 336. tbl. 18. árg.

Hver aukatunna kostar stórfé. En auðvitað vill sorphirðubransinn að allir hafi sem flestar tunnur.
Hver aukatunna kostar stórfé. En auðvitað vill sorphirðubransinn að allir hafi sem flestar tunnur.

Í Speglinum 28. nóvember var haft eftir forstjóra Sorpu að aukasorptunna fyrir alla höfuðborgarbúa kosti hálfan milljarða króna og að þjónusta aukatunnurnar kosti hálfan milljarð til viðbótar á hverju ári.

Þetta eru gagnlegar upplýsingar því hingað til hafa ýmsir talað eins og öll sorpflokkun á heimilum sé hreinn unaður og dásemd sem kosti ekkert, sé jafnvel bara spurning um hugarfar fólks. Viltu ekki hætta að vera vondur mengari og verða góður flokkari?

Til viðbótar við stofnkostnað upp á hálfan milljarð í sjálfum tunnunum, árlegan rekstarkostnað upp á hálfan milljarð hafa húseigendur svo orðið fyrir ótöldum útgjöldum við að breyta sorptunnuskýlum sínum, stækka þau svo koma megi bláu eða grænu tunnunni fyrir.

Menn sem vilja þétta byggð ættu kannski líka að velta því fyrir sér hvert landflæmið er sem fer undir hinar óþörfu aukasorptunnur. Ef reiknað er með hálfum fermetra á hverja tunnu gætu farið um 20 þúsund fermetrar í borginni undir aukatunnurnar.

Í Speglinum var einnig rætt við Dofra Hermannsson starfsmann sorphirðufyrirtækis sem vill að fólk dúlli sem mest við heimilissorpið, hafi sem flest ílát undir það og fái sem flesta trukka til að tæma þau.

Ein af ástæðum þess að það er verið að hvetja fólk til að flokka heima er að þá er hráefnisstraumurinn, þú ert með lífrænan hráefnisstraum og svo ertu með endurvinnanlegu efnin eins og pappa og pappír og annað slíkt, þú nær að aðskilja þetta strax í upphafi þannig að þetta grautast ekki allt saman. Endurvinnsluefnin verða það af leiðandi verðmætari.

Og svo er önnur ástæða og hún er sú að þegar fólk flokkar sjálft heima þá verður það meira meðvitað um ruslið sitt.

Dofri gagnrýnir Sorpu að opna fyrir þann möguleika að leysa sorpförgun með nýrri jarðgerðar- og gasstöð án flokkurnar á heimilum. Hann segir stefnu Sorpu bera

…það í sér að fólk sé of ófullkomið, óvandað og latt til að nenna eða geta flokkað ruslið sitt.

Nú ætti það auðvitað ekki að vera miðstýrð ákvörðun hjá opinberu fyrirtæki hvernig borgarbúar kjósa að farga sorpinu sínu. En með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu dægradvöl að flokka sorp er þá ekki alveg hugsanlegt að það finnist fólk í landinu sem telur tíma sínum og fjármunum miklu betur varið til annarra hluta en að vera meðvitað um ruslið sitt og flokka það í gríð og erg?

Er það fólk endilega óvandaðir letingjar?