Vefþjóðviljinn 333. tbl. 18. árg.
Meðal aukinna ríkisútgjalda sem kynnt voru í vikunni eru 400 milljónir króna í auknar „húsaleigubætur“.
Þetta hlýtur að vera kærkomin jólauppbót fyrir leigusala.
Maður getur greitt 150 þúsund krónur í húsaleigu á mánuði. Kona er tilbúin til að leigja honum íbúðina sína fyrir þá fjárhæð.
Þá birtist ríkissjóður og býðst til að leggja manninum til 50 þúsund krónur mánaðarlega gegn því að hann leigi íbúð. Leigusalinn veit einnig af þessum styrk.
Í hvaða fjárhæð endar þá leigan? Hvað er maðurinn sem gat áður greitt 150 þúsund krónur tilbúinn til að greiða þegar hann fær 50 þúsund krónur greiddar frá þriðja aðila til þess?
175 þúsund? 195 þúsund? 199 þúsund?
Húsaleigubætur eru ekki nema í besta falli að hluta til styrkur til leigjenda. Hinn hlutinn endar óhjákvæmilega í vasa leigusalans.