Vefþjóðviljinn 329. tbl. 18. árg.
Vefþjóðviljinn hefur oft slappað af og notið lífsins, jafnvel á kaffihúsi eða með eins og einum flugtíma, þegar aðrir hafa æst sig út af „flugvallarmálinu.“
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi hefur enda bent á það árum saman að jafnvel þótt flugvöllurinn færi ekki úr Vatnsmýrinni á næstunni séu mikil tækifæri til að byggja íbúðir innan núverandi byggðar í Reykjavík.
Þetta sjónarmið borgarfulltrúans rifjaðist upp þegar stjórnendur Reykjavíkurborgar kynntu á dögunum áætlanir um 4 til 6 þúsund nýjar íbúðir innan núverandi byggðar á næstu 4 til 5 árum.
Það virðist því talsvert pláss til skiptanna fyrir utan flugvöllinn ef að allt að fjórar íbúðir bætast við í borginni á hverjum degi næstu fjögur árin. Þá er ótalið allt sem gerist í nágrannasveitarfélögum hennar.
Flestar þessarra byggingahugmynda hafa raunar verið lengi í deiglunni og verið á teikniborðinu frá því í síðustu eða þarsíðustu efnahagsuppsveiflu.
Það er auðvitað ekkert að því að nýta illa nýtt svæði innan borgarinnar til íbúðabygginga á meðan menn gera það af sæmilegri virðingu fyrir þeim byggingu og eigendum þeirra sem fyrir eru.
Því miður er oft erfitt að treysta mönnum sem hafa gert svonefnda þéttingu byggðar að einskonar trúarbrögðum fyrir því að gæta hófs gagnvart grónum hverfum.