Vefþjóðviljinn 328. tbl. 18. árg.
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins var sagt frá nýútkominni bók Guðna Einarssonar, Hreindýraskyttum, þar sem hann fjallar um hreindýraveiðar á Íslandi og ræðir við reynda veiðimenn. Saga hreindýra á Íslandi nær aftur á síðari hluta átjándu aldar, en lengi vel var fátt í stofninum. Samkvæmt frásögn Guðna voru um árið 1940ekki nema um 100 dýr eftir, en þau héldu sig norðan Vatnajökuls þar sem þau fengu að vera óáreitt.
Guðni segir að á þessum tíma hafi orðið ákveðin skil og fyrsti hreindýraeftirlitsmaðurinn verið ráðinn, Friðrik Stefánsson bóndi.
Friðrik áttaði sig á því að tarfar í hjörðinni voru orðnir of margir og fékk ráðherraleyfi til að hefja tarfaveiðar. Hann stjórnaði þeim og naut aðstoðar ýmissa góðra manna úr sveitunum. Þessar aðgerðir, skipun eftirlitsmanns og stýrð veiði, urðu til þess að hreindýrastofninn rétti mjög hratt úr kútnum…
Eitt af því fjölmarga sem lítill skilningur er á í heiminum, er að dýrastofn sem á erfitt getur átt mikið undir því að hinn freki og oft ágjarni frændi hans, maðurinn, sjái sér hag í viðgangi hans. Um leið og menn fá lögmæta leið til að nýta stofninn, fá þeir hag af því að stofninn dafni.
Alger friðun stofna hindrar alla löghlýðna menn frá því að veiða úr stofninum, en sé ábatavonin næg munu aðrir ekki láta boð og bönn stöðva sig. Og það verða ekki endilega menn sem hugsa um vöxt og viðgang stofnsins til langframa.
Það á við á mjög mörgum sviðum að menn hugsa betur um eigin verðmæti, en þau verðmæti sem enginn á. Eða sem ríkið á. Það er auðvitað ekki algilt, enda mörg dæmi um að einkafyrirtæki og einstaklingar fari illa að ráði sínu í fjármálum, og auðvitað eru til dæmi um forstöðumenn opinberra stofnana sem fara af mikilli ábyrgð með það fé sem þeim er trúað fyrir. En meginreglan er engu að síður sú, að menn hugsa meira um eigin hagsmuni en annarra, og fara betur með eigin verðmæti en annarra. Þeir sem efast um það, ættu að aka Kjöl einn sumardaginn og telja annars vegar smábílana sem eru með bílaleigumerki í gluggum, og svo hina sem eru í eigu ökumannsins sjálfs.