Helgarsprokið 23. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 327. tbl. 18. árg.

Ridley kallar lögboðna brennslu á jurtaolíum í bílvélum svívirðilegan glæp.
Ridley kallar lögboðna brennslu á jurtaolíum í bílvélum svívirðilegan glæp.

Í bók Matt RidleysHeimur batnandi fer, sem kom nýlega út á íslensku er forvitnilegur kafli um það hin jákvæðu áhrif af hagnýtingu orkulinda en slík nýting er yfirleitt gagnrýnd mjög.

Ridley bendir að að hagnýting orkulinda hafi gert þrælahald óhagkvæmt og þar með flýtt fyrir endalokum þess:

Saga orkunnar er einföld. Að fornu vann fólk sjálft öll verk og notaði aðeins eigið vöðvaafl. Síðan rann upp sá tími þegar það fékk aðra til að vinna verkin fyrir sig og árangurinn varð píramídar og tómstundir hinna fáu en erfiði og þungi hinna mörgu. Síðan urðu hægar framfarir og einn orkugjafi tók við af öðrum: frá manni til hests, til vatns, til vinds til jarðefnaeldsneytis.

En hagnýting orkulinda á borð við olíu og kol hefur ekki aðeins lagað kjör mannsins. Náttúrunni hefur verið einnig verið hlíft við óþarfa ágangi þótt þess sé sjaldnast getið í umræðunni:

Oft er litið framhjá þeirri óvefengjanlegu staðreynd að jarðefnaeldsneyti hefur bjargað stórum landsvæðum frá iðnvæðingu. Áður en jarðefnaeldsneyti kom til sögu var orka ræktuð í moldinni og til þess þurfti mikið landrými. Þar sem ég bý streyma ár og lækir óheftir, timbur vex og rotnar í skógum, kýr eru á beit á beitilöndum og vindmyllur menga ekki útsýni. Væri ekki fyrir jarðefnaeldsneyti væri brýn þörf á þessu landi til að rækta orku fyrir mannkynið. Þyrftu Bandaríkjamenn að rækta lífeldsneyti fyrir allt eldsneytið, sem þeir nota til flutninga, þá þyrfti 30% meira ræktarland en nú er í notkun. Hvar ættu þeir þá að rækta matvæli?

Ridley segir að enn sem komið er séu endurnýjanlegir orkukostir ofboðslega landfrekir. Til dæmis þyrftu Bandaríkin sólarflögu á stærð við Spán til að anna orkuþörf sinni eða vindmyllusvæði á stærð við Kasakstan.

Ridley fer heldur ekki fögrum orðum um svonefnt lífeldsneyti sem Íslendingar hófu nýlega að brenna í bílum sínum eftir að alþingi samþykkti lög sem skyldar söluaðila eldsneytis ekki aðeins til þess að selja endurnýjanlegt eldsneyti heldur fellir ríkið einnig niður skatta á slíkt eldsneyti til að vega upp á móti því hve óhagkvæmt lífeldsneytið er í samanburði við hefðbundið eldsneyti.

Við búum í heimi þar sem dýrategundir eru að hverfa og meira en milljarður manna hefur vart efni á mat. Í slíkum heimi myndi jafnvel rithöfundurinn Jonathan Swift ekki voga sér að skrifa háðsádeilu þar sem stjórnmálamenn halda því fram að það sé á einhvern hátt gott fyrir jörðina að höggva regnskóga til að rýma fyrir pálmaolíu eða hætta ræktun matjurta til að rýma fyrir lífeldsneyti í þeim tilgangi einum að gera fólki kleift að nota eldsneyti, sem unnið er úr kolvetni á bílana sína í stað eldsneytis sem unnið er úr vetniskolefni og hækka með því matvælaverð fyrir hina fátæku. Fáránlegt er alltof milt orð til að lýsa þessum svívirðilega glæp.

Heimur batnandi fer fæst í bóksölu Andríkis