Þriðjudagur 18. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 322. tbl. 18. árg.

Forsjárhyggjan er víða. Sumir vilja hafa hærri skatta á áfengi með mat en lægri á matnum sjálfum nema hann sé sykraður og svo vörugjöld og hærri skatt á eldhúsáhöldum, borðstofusettinu, handlaugum og salernum. Allir telja sig hafa góð rök fyrir forsjárhyggjunni.
Forsjárhyggjan er víða. Sumir vilja hafa hærri skatta á áfengi með mat en lægri á matnum sjálfum nema hann sé sykraður og svo vörugjöld og hærri skatt á eldhúsáhöldum, borðstofusettinu, handlaugum og salernum. Allir telja sig hafa góð rök fyrir forsjárhyggjunni.

Það er hagsmunamál hins almenna manns að dregið verði úr álögum ríkisins á áfengi og sú neysluvara beri í framhaldi af því sambærileg gjöld og önnur. Verðlækkun á neysluvöru er einfaldlega kjarabót fyrir alla þá sem kaupa slíka vöru og þurfa menn ekki að vera feimnir við að viðurkenna það um áfengi eins og aðrar vörur.

Þess vegna er það rétt stefna að jafna virðisaukaskatt á hvers kyns varning og þjónustu og afnema um leið vörugjöld sem leggjast ekki aðeins á sumar vörur heldur misjafnlega á þær. 

Áfengi er lögleg neysluvara sem ríkið ætti hvorki að ota að fullorðnu fólki né hindra það í að nálgast.

Skattar á áfengi eru hlutfallslega hæstir á ódýrasta vínið því að stórum hluta eru skattarnir lagðir á áfengisinnihald. Skattlagningin kemur því sérlega illa við hina lægst launuðu sem vilja dreypa á víni. Hvenær hefur verkalýðsforystan beitt sér gegn þessari skattlagningu?

En hvað með þá sem hafa farið illa út úr áfengisneyslu sinni? Vissulega hafa mjög margir gert það. En halda menn að slíku verði forðað með háu áfengisverði? Sá sem missir öll tök á áfengisneyslu sinni hættir varla að drekka vegna opinberra gjalda. Það að ríkið haldi uppi áfengisverði gerir áfengisneyslu dýrari, en hún hjálpar ekki þeim helst þyrftu að hætta að drekka.

Ef ríkið léti af sérstakri gjaldtöku sinni af áfengi, svo þessi vara bæri sambærileg gjöld og önnur, myndi ofdrykkja varla aukast. En hófdrykkjan yrði ódýrari. Láglaunamaðurinn gæti oftar veitt sér vínglas með matnum.