Vefþjóðviljinn 323. tbl. 18. árg.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins ræddi við formann fjárlaganefndar Alþingis í gær. Virtist mega skilja bæði fréttamann og fjárlaganefndarformanninn þannig að staða ríkissjóðs væri nú betri en áður hefði verið talið.
Fréttamaðurinn spurði hvort þá væri ekki minna tilefni til niðurskurðar opinberra útgjalda, en formaður fjárlaganefndar tók sem betur fer ekki undir það. Hins vegar útilokaði hann ekki að framlög til heilbrigðismála yrðu aukin.
Nú má vera að staða ríkissjóðs sé eitthvað betri en áætlað var þegar unnið var að fjárlagafrumvarpinu. En það breytir ekki því að ríkissjóður skuldar óheyrilegar fjárhæðir en skattheimta hefur verið aukin verulega á síðustu árum. Hið opinbera þenst út ár frá ári. Hafi hagur ríkissjóðs eitthvað batnað, umfram það sem gert var ráð fyrir, verður það ekki til þess að skyndilega verði svigrúm fyrir mikil ný útgjöld.
En margir vilja auka opinber framlög til heilbrigðismála. Endurnýja tækjakost sjúkrahúsa, hækka laun starfsmanna og bæta úr ýmsu öðru. Það er alveg hægt, ef fólk vill. En til þess þarf að skera önnur ríkisútgjöld niður.
Tvennt er ákaflega mikilvægt. Að lækka skatta, og auka þannig ráðstöfunarfé hins almenna manns, en það hleypir auknum krafti í atvinnulífið. Og að greiða niður opinberar skuldir, en þannig má í raun létta sköttum af komandi kynslóðum.
Fjárlagafrumvarpið er nú til meðferðar á alþingi. Þar ættu menn sem vilja meira fé til heilbrigðismála að gera þrennt
Fyrst ættu þeir að fara yfir frumvarpið og skera einhvers staðar niður milljón. Hækka svo greiðslur ríkisskulda um milljón.
Svo ættu þeir að fara aftur yfir frumvarpið og skera niður aðra milljón. Bæta henni svo við hjá Landspítalanum eða annars staðar í heilbrigðismálum.
Loks ættu þeir að fara í þriðja sinn yfir frumvarpið, skera niður milljón en lækka skattheimtu um sömu milljón.
Þennan sama hring ættu þeir svo að fara aftur og aftur, þar til þeir telja sig hafa bætt nægilega miklu við heilbrigðismálin.
Niðurskurðarmöguleikarnir eru næstum óþrjótandi.