Helgarsprokið 16. nóvember 2014

Vefþjóðviljinn 320. tbl. 18. árg.

Halda menn að nígerískir tölvuþrjótar ætli að brjótast inn í tölvu einhvers og... staðfesta útreikning sem tölvueigandinn hafði einmitt ætlað að hafna?
Halda menn að nígerískir tölvuþrjótar ætli að brjótast inn í tölvu einhvers og… staðfesta útreikning sem tölvueigandinn hafði einmitt ætlað að hafna?

Eitt það leiðinlegasta við stóran hluta íslenskra stjórnmálamanna, og að því er virðist marga embættismanna líka, er vaxandi tilhneiging þeirra til að líta á almenna borgara sem einhvers konar vitleysinga sem sérfræðingar bæði megi og eigi að hugsa fyrir. Annars fari borgararnir sér að voða.

Mjög fáir stjórnmálamenn virðast sjá ástæðu til að rísa gegn þessari þróun.

Þetta snýst ekki eingöngu um samfelldan hernað gegn tóbaksnotkun fullorðins fólks. Og ef einhver heldur að sá hernaður sé í raun til þess að verja saklaust fyrir tóbaksreyk þá ætti hann að velta fyrir sér hvers vegna reynt sé að hindra menn í taka tóbak í vör og nef. Það er lagður sérstakur skattur á sykur, til að fá fólk til að neita sér um sykraðar vörur. Á dögunum var starfsmaður landlæknis í sjónvarpinu og vildi að verslanir feldu sælgæti og annað góðgæti svo fólk keypti það síður. Ríkisvaldinu er beitt til að gera fólki erfiðara að semja um „smálán“. Menn geta ekki lengur tekið hefðbundið bílalán án þess að gangast undir „greiðslumat“. Þingmaður Framsóknarflokksins sagði á dögunum að best væri ef allir hjólreiðamenn þyrftu að vera með hjálm.

Eitt nýjasta dæmið um tilraunir embættismanna og stjórnmálamanna til að knýja almenna borgara til einhverrar hegðunar, er sú ákvörðun að skylda alla þá sem þiggja vilja „leiðréttingu húsnæðislána“ til þess að fá sér rafræn skilríki.

Til að réttlæta þetta er beitt því falsi að þetta sé því miður nauðsynlegt. Menn verði að „samþykkja“ útreikningana og eina örugga leiðin til að koma því samþykki til skila sé að menn notist við rafræn skilríki.

Þetta er út í hött. Menn sáu einfaldlega tækifæri til að tryggja það að tugþúsundir manna fengju sér skilríki sem þær hafa hingað til alls ekki viljað fá sér. Það er fráleitt yfirskin að skilríkin séu nauðsynleg til þess að staðfesta einhverja útreikninga.

Fólk notar heimabanka á hverjum degi. Fær þangað laun sín, greiðir reikninga, borgar af lánum og stofnar bankareikninga. Ekki þarf rafræn skilríki til þess. Fólk skilar skattskýrslum og á í allskyns viðskiptum og þar er engin þörf á rafrænum skilríkjum. Fólk gat meira að segja sótt um „leiðréttinguna“ án þess að hafa rafræn skilríki.

En þegar kemur að því að gera hinn ofboðslega þýðingarmikla hlut, að „staðfesta útreikning ríkisskattstjóra“, þá þarf skyndilega rafræn skilríki.

Auðvitað blasir við að þetta er fals. Hvers vegna var ekki krafist rafrænna skilríkja þegar menn sóttu um, en þeirra er orðin þörf þegar á að staðfesta útreikninginn? Ætli það sé vegna þess að embættismenn hafi talið að þegar menn sæju fjárhæðina sem bíður eftir þeim, þá myndi enginn láta það eftir sér að neita skilríkjunum.

En hvers vegna í ósköpunum er miklu mikilvægara að tryggja „öryggi“ þegar fólk „staðfestir útreikningana“ en þegar það á venjuleg bankaviðskipti? Auðvitað er það ástæðulaust. Það er bara verið að troða upp á fólk rafrænum skilríkjum.

Hver er eiginlega áhættan við að fólk geti „staðfest útreikningana“ án þess að nota rafræn skilríki? Halda menn að nígerískir tölvuþrjótar ætli að brjótast inn í tölvu einhvers og… staðfesta útreikning sem tölvueigandinn hafði einmitt ætlað að hafna?

Hvernig væri að þeir sem krefjast þessara skilríkja af fólki útskýri hvaða hættu á að afstýra með því enginn geti „staðfest útreikningana“ án þess að vera með rafræn skilríki.

Enn er ekki of seint að hætta við að troða rafrænum skilríkjum upp á fólk. Afar auðvelt er til dæmis að samþykkja einfalda lagabreytingu sem gerir rafrænu skilríkin óþörf. Aðeins þarf að breyta einni lagagrein til þess. Frumvarp til breytinga gæti einfaldlega hljóðað svo: „3. málsgein 10. greinar laga nr. 35 2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána hljómi svo: „Þeir umsækjendur, sem innan þriggja mánaða frá birtingu útreiknings hafa hvorki afturkallað umsóknina né kært útreikninginn samkvæmt ákvæðum 14. greinar, teljast hafa samþykkt útreikninginn.““

Ef einfaldlega verður sett sú regla að þeir sem hvorki afturkalla umsóknina né kæra útreikninginn hafi þar með samþykkt hann, er hægt að koma í veg fyrir alla þessa fyrirhöfn.