Vefþjóðviljinn 297. tbl. 18. árg.
Í vikunni sagði Morgunblaðið frá starfsemi félags sem nefnir sig Hið íslenska töframannagildi, og er félagsskapur töframanna. Þar eru félagsmenn um tuttugu, og þar á meðal tvær konur sem nú munu koma fram opinberlega í fyrsta sinn sem galdrakerlingar, Halldóra Björk Ewen íslenskukennari og Katrín Jakobsdóttir þingmaður vinstrigrænna.
Sjálfsagt eru þeir margir sem verða ekkert hissa við að heyra að þingmaðurinn Katrín reynist vera töframaður, ofan á annað. Að minnsta kosti virðist sem margir trúi því að stjórnmálamenn séu göldróttir.
Ef miðað er við þau völd sem margir vilja í raun að sé í höndum stjórnmálamanna, þá mætti halda að stjórnmálamennirnir væru taldir galdramenn. Margt fólk vill að stjórnmálamenn setji reglur um flest milli himins og jarðar, útdeili réttlæti, berjist gegn öllu ranglæti og „skipti gæðunum jafnt“. Þeir megi ákveða að eitthvað sé „sameign þjóðarinnar“, en eitthvað annað sé það ekki. Stjórnmálamenn geti meira að segja ákveðið hvað sé siðlegt og hvað ósiðlegt. Þeir mega ákveða að ríkið reki sinfóníuhljómsveit en ekki þungarokkhljómsveit. Þeir ráði því hvar fólk má reykja og hvar ekki, hvaða vexti megi borga af lánum, hvort hjólreiðamenn þurfi hjálm og svo framvegis.
En svo merkilegt sem það er, þá eru það oft þeir sem verst tala um stjórnmálamenn sem vilja í raun að stjórnmálamenn fái sem mest völd. „Þingmenn eru tómir asnar“, segir einhver sem daginn eftir heimtar kannski nýjar opinberar reglur á einhverju sviði.
Þá gefur kannski einhver það svar að stjórnmálamennirnir séu slæmir, en það séu „fagmennirnir“ sem eigi að ráða. En stjórnmálamennirnir hafa þó lýðræðislegt umboð. Bjarni og Sigmundur styðjast við lýðræðislegt umboð. Það gera „sérfræðingarnir“ ekki.
Menn ættu að minnka völd stjórnmálamanna. En ekki færa völdin til „sérfræðinga“ heldur til borgaranna sjálfra. Leyfa hverjum og einum að ráða sem mestu um eigið líf. Hvort hann reykir, drekkur, hjólar hjálmlaus, tekur smálán, horfir á nektardans, dansar nektardans, borðar feitmeti, sparar, kaupir húsnæði, leigir húsnæði, kaupir bíl, gengur í vinnuna, eða hvað hann kýs að gera.
Sérstaklega ættu þeir, sem vilja að sérfræðingar ráði sem mestu, að styðja slíkar hugmyndir um frelsi einstaklingsins. Hver er meiri sérfræðingur í málum hvers manns, en einmitt hann sjálfur?