Vefþjóðviljinn 296. tbl. 18. árg.
Það hefði vart þótt stílbrot þótt Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra hefði setið í hreinu vinstri stjórninni á síðasta kjörtímabili. Og ástæðulaust að hafa það af henni og félögum hennar í Framsóknarflokknum að þau komu Jóhönnu og Steingrími til valda með því að bjóða minnihlutastjórn vinstri flokkanna skjól í janúar 2009.
Eygló ritaði grein í Fréttablaðið í gær undir yfirskriftinni „Húsum okkur upp á skynseminni“. Þar leggur hún eftirfarandi til:
Verkalýðshreyfingin hefur nokkra reynslu af samkomulagi við atvinnurekendur um framlög í fræðslusjóði, orlofssjóði og sjúkrasjóði og síðast árið 2011 náðist samkomulag við atvinnurekendur um að þeir greiddu árlega rúman einn milljarð króna í starfsendurhæfingarsjóði. Hvers vegna ekki að semja við atvinnurekendur um sérstakt framlag í húsnæðissjóði á vegum verkalýðsfélaganna til uppbyggingar leiguhúsnæðis fyrir félagsmenn?
Já, verkalýðshreyfingin hefur þegar samið um að í stað þess að launamenn fái kauphækkun renni launin í margs konar sjóði. Er þá ekki bara fínt að sleppa næstu launahækkun líka og stofna en einn sjóðinn þar sem forstjórar verkalýðsfélaganna sitja í stjórn með fulltrúum atvinnurekenda og skammta gæðin?
Þú fær enga launahækkun að þessu sinni en í staðinn færðu að fara í biðröð eftir leiguíbúð á vegum stéttarfélagsins. Ha, ertu að greiða af eigin íbúð og þarft á peningunum að halda? Nú þá styttist biðröðin sem því nemur.