Vefþjóðviljinn 287. tbl. 18. árg.
Í síðustu viku voru nokkrir einstaklingar dæmdir til sektargreiðslu fyrir að hlýða ekki lögreglunni þegar hún sagði þeim að færa sig, þar sem þeir voru staddir á vinnusvæði þar sem verið var að leggja nýjan Álftanesveg. Þetta voru með öðrum orðum „mótmælendurnir í Gálgahrauni“. Þeir sem voru dæmdir hafa að minnsta kosti einhverjir tekið niðurstöðunni illa og lýst henni sem miklu mannréttindabroti. Þeir hafi verið dæmdir fyrir að nýta sér rétt sinn til að mótmæla. Sama hafa einhverjir aðrir sagt.
Í pistli í Fréttablaðinu í gær tekur Guðmundur Andri Thorsson alveg ófyrirsjáanlega afstöðu til þessa máls. Hann segir að fái þessi dómur að standa hafi verið send „margræð skilaboð um það hvar óhlýðni kunni að vera réttlætanleg og hvar ekki.“ Svo bætir hann við :
Á sínum tíma voru nefnilega aðrir níumenningar sýknaðir í Hæstarétti af ákæru um brot gegn valdstjórninni: að hafa óhlýðnast lögreglu og þingvörðum og ruðst inn í alþingishúsið, til þess að mótmæla og sýna í verki hug sinn í garð þings sem þeir töldu hafa brugðist hlutverki sínu. Skilaboðin eru þá þessi, standi dómurinn: Það er verra að trufla gröfur en að trufla störf alþingis.
Í þessum fáu orðum er margt ónákvæmt. Þessir níumenningar voru sýknaðir af langalvarlegasta ákæruefninu, sem var ekki brot gegn valdstjórninni heldur árás á alþingi. Þrír af þessum níu voru einmitt sakfelldir fyrir brot gegn valdstjórninni. Svo er það einnig rangt hjá Guðmundi Andra að Hæstiréttur hafi sýknað fólkið. Málið fór aldrei fyrir Hæstarétt, því settur ríkissaksóknari í málinu, Lára V. Júlíusdóttir, ákvað að áfrýja ekki héraðsdómnum.
En þessi misskilningur Guðmundar Andra er ekki meginmálið. Menn ættu frekar að ræða það meginatriði hvort menn vilja þjóðfélag þar sem menn komast upp með að sækja sér þann rétt sem þeir vilja með valdi. Vefþjóðviljinn hvatti oftar en einu sinni til þess að framkvæmdum við Gálgahraun yrði hætt. Hann skilur vel þá sem vilja ekki þá vegarlagningu. En vilja menn að ákvörðun um það hvort vegurinn verði lagður eða ekki lagður, verði tekin með handafli?
Hvað segðu menn ef niðurstaða löglegra yfirvalda hefði verið sú að vegurinn yrði ekki lagður, en áhugamenn um vegarlagninguna hefðu þá bara mætt með gröfur og skóflur eina nóttina og byrjað að ryðja? Þeir segðust svo bara vera að „nýta sér rétt sinn til að mótmæla því að vegurinn verði ekki lagður“.
Menn mega mótmæla ríkisrekstri á leikhúsi og sinfóníuhljómsveit. En hvað þætti mönnum ef „mótmælendur“ byrjuðu að hindra sýningar með því að þyrpast sjálfir á sviðið og neita að fara niður, svo leikaranir kæmust ekki að? Eða ef þeir sem vilja ekki að ríkið greiði „starfslaun“ rithöfunda myndu slá hring um bækur þeirra í búðum svo kaupendur kæmust ekki að þeim?
Það er kannski auðvelt að krefjast þess að samherjar sínir fái rétt til að knýja vilja sinn fram með valdi, en ætli menn væru jafn fúsir til að viðurkenna að andstæðingarnir hefðu þá líka sama rétt?