Vefþjóðviljinn 285. tbl. 18. árg.
Frá Noregi berast nú þær fréttir að fjármálaráðherrann þar í landi vilji takmarka aðgengi að persónuupplýsingum sem finna má í skattskrám.
Siv Jensen fjármálaráðherra vill að þeir sem leita að upplýsingum um aðra í skattskránum verði að skrá sig inn og þeir sem séu skoðaðir geti skoðað hver hafi skoðað þá.
Varla hafa þeir sem vilja að allar upplýsingar um þessi mál liggi á lausu neitt á móti því að upplýsingar um þá sem njósna um náunga sína séu einnig birtar. Er það ekki bara talið flott og jafnvel samfélagslega skylda Jóa að þegar hann finnur til öfundar yfir tjaldvagni og golfsetti Sigga nágranna að hann fletti honum upp? Væri Jói ekki að sinna „mikilvægu aðhaldi“ fyrir skattyfirvöld með því að kanna hvort lífsstíll Sigga komi heim og saman við launatekjur?
Þetta væri vissulega til bóta ef hinir forvitnu þyrftu að skrá sig til að geta flett upp í skattskránum (skattskrá og álagningarskrá). En til að þetta hefði raunveruleg áhrif til persónuverndar þyrfti auðvitað að setja hámark á fjölda uppflettinga sem hver og einn gæti gert. Að öðrum kosti gætu Benedikt Jóhannesson og Reynir Traustason haldið áfram að fletta upp nokkur þúsund mann og selja upplýsingarnar á næsta götuhorni.
Auðvitað er heldur ólíklegt að núverandi ríkisstjórn geri breytingar í þessa veru. Blogglúðrasveit Samfylkingarinnar og Speglar Ríkisútvarpsins myndu vafalaust taka slíkum tillögum illa og þá er varla þorandi að viðra þær.
Þó mætti kannski nefna það við ríkisstjórnina að núverandi skipan mála varðandi skattskrárnar er ekki komin frá Jóhönnu og Steingrími. Ríkisstjórn Sigmundar og Bjarna væri því ekki að ganga gegn þeirri meginstefnu sinni að breyta engu sem síðasta stjórn gerði þótt hún gerði einhverjar breytingar á birtingu persónuupplýsinga úr skattskrá.