Vefþjóðviljinn 282. tbl. 18. árg.
Í útdrætti úr ársreikningi Samfylkingarinnar fyrir árið 2013 sem birtur er á vef ríkisendurskoðunar kemur fram að flokkurinn þáði á síðasta ári 400 þúsund krónur í styrk frá Sigfúsarsjóði. Það er ekki í fyrsta sinn sem sjóðurinn styður Samfylkinguna.
Sigfúsarsjóður var stofnaður árið 1952 til minningar um Sigfús Sigurhjartarson, þingmann Sósíalistaflokksins og ritstjóra Þjóðviljans. Tilgangur sjóðsins var samkvæmt stofnskrá að „reisa og reka samkomuhús og starfsmiðstöð fyrir íslenska alþýðu og flokk hennar, Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokkinn.“
Árið 1968 var skipulagsskrá Sigfúsarsjóðs breytt, um sama leyti og Sósíalistaflokkurinn var lagður niður og Alþýðubandalagið formlega stofnað. Breytingin var á þá leið að sjóðurinn skyldi „reisa og reka húsnæði fyrir Sósíalistaflokkinn eða hvern þann sósíalistískan fjöldaflokk, sem tekur við hlutverki hans að dómi sjóðsins, eða að vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi á annan hátt.“
Frá árinu 1999 hefur sjóðurinn verið nýttur í þágu Samfylkingarinnar, sem er viðurkenning á því að flokkurinn sé sá sem helst telst „vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi.“
Sigfúsarsjóður keypti meðal annars í félagi við annað gamalt peningafélag vinstri manna, Alþýðuhús Reykjavíkur ehf., það húsnæði sem Samfylkingin hefur til umráða við Hallveigarstíg í Reykjavík.
Ætli þeir sem settu ströng lög um fjármál stjórnmálaflokka árið 2006 hafi áttað sig á því að til hliðar við flokkana störfuðu fjársterk félög á borð við Sigfúsarsjóð og Alþýðuhús Reykjavíkur sem lögin ná ekki til?