Vefþjóðviljinn 278. tbl. 18. árg.
Á síðustu árum hefur stjórnmálaumræðan á Íslandi færst hratt í átt til stjórnlyndis, en frá raunverulegu sjálfstæði einstaklinganna. Ein helsta ástæða þessa er hve hægrimenn hafa forðast alvarlega stjórnmálaumræðu undanfarin ár. Kjörnir fulltrúar hægrimanna virðast nú fyrst og fremst hafa hugann við tæknileg úrlausnarefni og að bera fram frumvörp embættismanna. Sumir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hugsa helst um að enginn „pólitískur ágreiningur“ verði um frumvörp þeirra, og að takast megi að „fá stuðning stjórnarandstöðunnar“.
Embættismenn vilja ekkert frekar en kjörna fulltrúa sem hafa enga sérstaka pólitíska sannfæringu. Ráðherra sem tekur við ráðuneyti sínu og bíður eftir því að embættismennirnir segi honum hvað sé á döfinni. Að hvaða verkefnum hafi verið unnið lengi og vanti aðeins herslumuninn. Hvaða breytingar verði að skapi þeirra sem áhrifamestir séu í geiranum.
Embættismenn vilja hins vegar ekki ráðherra sem kemur í ráðuneytið með skýra sannfæringu fyrir pólitískum atriðum, að minsta kosti ekki ef þau snúast um að auka vægi borgarans en minnka vægi hins opinbera.
Hvað hafa núverandi ráðherrar gert, sem bendir til raunverulegrar pólitískrar sannfæringar?
Skattalækkanir eru sáralitlar og nánast ósýnilegar í samanburði við skattahækkanir til fjármögnunar á ofboðslegum auknum ríkisútgjöldum í svokallaða leiðréttingu. Einkavæðing er ennþá engin. Ríkisútvarpið veður uppi án þess að nokkur þori að hreyfa legg eða lið.
Ráðherrarnir hafa ekkert sagt eða gert sem bendir til hugmyndafræðilegs ágreinings við vinstrimenn. Þeir hafa hvergi gert neitt til þess að auka frelsi borgarans til þess að ráða lífi sínu eða hagsmunum. Þeir hafa hvergi risið gegn neinum þrýstihópi forræðishyggjunnar.
Með svolítilli alhæfingu má segja að einn munur vinstrimanns og hægrimanns sé að vinstrimaðurinn vill stækka ríkið og minnka einstaklinginn. Hægrimaðurinn vill leyfa einstaklingnum að stækka en halda aftur af ríkinu.
Dæmigerður vinstrimaður vill smækka einstaklinginn. Fyrir vinstrimanninum er hver og einn borgari ekkert nema hluti af gríðarstórri heild. Vinstrimaðurinn vill fjölga litlum leiguíbúðum. Hann er á móti einkabílnum og vill frekar að fólk taki „almenningsvagna“ sem ganga eftir skipulagi hins opinbera. Vinstrimaðurinn vill að sveitarfélög reki strætisvagnaþjónustu sem nái um allt land. Vinstrimaðurinn vill takmarka samningafrelsi fólks. Ríkið ákveði hvernig lán megi taka, á hvaða vöxtum, og hvaða upplýsingar eigi að veita áður en lánið fáist. Vinstrimaðurinn vill að menn þurfi að fara í greiðslumat áður en þeir fá að taka lán. Vinstrimanninum finnst að ríkinu komi við hvernig skipað er í stjórnir fyrirtækja og um hvaða laun má semja við starfsmenn. Þar má helst ekkert svigrúm vera fyrir mismunandi samningu við ólíka starfsmenn. Vinstrimaðurinn vill að ríkið sjái til þess að rekin sé sú menningarstarfsemi sem fólki á að finnast góð. Vinstrimaðurinn vill útrýma einkaeignarrétti en taka í staðinn upp „almannarétt“, því vinstrimaðurinn sér ekki einstakling heldur einungis gríðarstóra heild.
Þannig má lengi telja.
Hægrimaður vill að fólk sé sem mest sjálfráða um eigið líf, svo lengi sem það gerir ekki á hlut annarra.
Hvað hafa núverandi ráðherrar eða þingmenn, sem sitja við völd í krafti atkvæða hægrimanna, gert til þess að berjast fyrir viðhorfum hægrimanna en gegn viðhorfum vinstrimanna? Hafa þeir sagt eða gert eitthvað sem bendir til þess að þeim þyki ástæða til að gera venjulegt fólk meira sjálfráða um eigið líf?
Hvaða hafa núverandi ráðamenn gert til að afnema eitthvað af því sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir gerði? Ekkert. Þeir hafa ekkert gert til þess. Þeir nefna aldrei að mikilvægt sé að auka frelsi einstaklingsins. Ísland er meira að segja ennþá umsóknarríki í Evrópusambandið.
En þeir hafa rætt um náttúrupassa í eitt og hálft ár.
Svo eru þeir hissa á því að fylgið náist ekki upp.