Vefþjóðviljinn 276. tbl. 18. árg.
Seint verður fólk of oft minnt á að gleyma ekki því sem „ekki sést“, í öllum ákafanum við að hugsa um það sem „sést“. Þetta er mjög mikilvægt þegar kemur að umræðu um opinber útgjöld. Margir þeirra, sem vilja verja tiltekin ríkisútgjöld, tala nefnilega eins og þeir sjái eingöngu það sem fæst fyrir þau útgjöld, en hafi engan skilning á því að peningarnir sem ríkið tók og setti í málaflokkinn komu einhvers staðar frá.
Auðvitað gerist það oft að ríkið fær eitthvað fyrir peninginn. Þó ekki væri. En það eitt og sér, að einhver tiltekin fjárveiting hafi skilað áþreifanlegum árangri, sýnir ekki fram á að rétt sé að halda útgjöldunum áfram. Peningana, sem ríkið setti í starfsemina, tók það frá skattgreiðendum sem þar með höfðu minna milli handanna og gátu gert minna. Bæði fólk og fyrirtæki eru skattlögð fyrir allri eyðslu hins opinbera.
Ríkið ákveður til dæmis að taka fjögur hundruð milljónir króna frá skattgreiðendum og setja í kvikmyndasjóð sem síðan úthlutar til einhverra sem úthlutunarnefnd velur. Svo er gerð mynd og sýnd. Menn geta bent á myndina og sagt að án kvikmyndasjóðs hefði hún ekki verið gerð.
En hvað hefði verið gert ef skattgreiðendur hefðu fengið að halda fjögur hundruð milljónunum? Það veit enginn því þeir fengu ekki að gera halda þeim.
Þetta á ekki aðeins við um útgjöld og skatta, heldur hefur öll starfsemi ríkisins áhrif. Ríkið heldur úti útvarpsstöð sem spilar popptónlist, útvarpar frá tónleikum og gerir fleira slíkt. Margir segja að sú stöð sé ómissandi fyrir íslenska tónlist. Án þessarar stöðvar ríkisins myndi enginn sinna þessu hlutverki.
Það getur auðvitað verið, það veit enginn fyrr en á það myndi reyna. En þegar menn segja að enginn sinni einhverju nema ríkið, þá horfa menn stundum fram hjá því að hugsanlega „sinnir enginn þessu nema ríkið“, einmitt vegna þess að ríkið er að sinna því. Hvers vegna ætti einhver einkaaðili að opna útvarpsstöð sem byði upp á það sama og ríkið rekur fyrir opinbert fé? Hvers vegna ætti einhver að fara í þá samkeppni?
Svo mega menn auðvitað ekki gleyma því að hið opinbera þarf að forgangsraða. Auðvitað hafa mörg útgjöld einhverja kosti. Eitthvað fæst fyrir peninginn, en það má samt ekki gleyma að bera það saman við fjárþörf annarra verkefna ríkisins. Á að fjölga aðgerðum á sjúkrahúsi? Hversu marga stjórnendur þarf sami morgunþátturinn? Á að hækka örorkubætur? Á að fjölga lögreglumönnum? Á að hækka laun þroskaþjálfa? Þarf tvo sjónvarpsfréttatíma á dag? Á að senda lag í Eurovision?
Auðvitað má segja að það sé lýðskrum að spyrja hvort menn vilji hækka örorkubætur eða taka þátt í Eurovision. En menn mega samt ekki gleyma því að í fjárlögum þarf að forgangsraða.