Vefþjóðviljinn 262. tbl. 18. árg.
Skoski tennisleikarinn Andy Murray lýsti yfir á lokaspretti kosningabaráttunni um aðskilnað Englands og Skotlands að neikvæð kosningabarátta sambandssinna hefði ekki sannfært sig. Hann hvetti landa sína til að samþykkja aðskilnað. Ellefu þúsund manns voru fljót að endurbirta skrif Murrays um þetta með velþóknun.
Reyndar mun Murray lengi hafa verið lítill vinur Englands, svo sennilega var þessi afstaða hans ekki tekin í flýti. En miðað við fregnir af kosningabaráttunni þá voru þeir margir sem skiptu ört um skoðun og létu atkvæði sitt ráðast af veigalitlum hlutum. Miklar sveiflur í skoðanakönnunum benda til þess að það hafi ekki alltaf verið nein grundvallarsjónarmið sem réðu afstöðu manna.
Margir kjósendur lýstu því yfir að „hræðsluáróður nei-manna“ hefði farið í taugarnar á þeim. Þeir hefðu því færst frá nei yfir á já. Aðrir sögðust vilja veita Cameron ráðningu. Núverandi ríkisstjórn í London er svo vond að þetta getur ekki versnað, heyrðist stundum þegar sjónvarpsmenn töluðu við vegfarendur. Nei-menn létu margir atkvæði sín ráðast af sambærilegum ástæðum. Þessi Salmond er bölvaður frekjuhundur, ég er búinn að fá nóg af nagginu í honum.
Auðvitað verður hver og einn kjósandi að ráða því hvaða sjónarmið búa að baki því hvernig hann greiðir atkvæði. En kosning eins og þessi, þar sem atkvæði fjölmargra ráðast af stemningu andartaksins, minna á hversu auðvelt er að misnota þjóðaratkvæðagreiðslur.
Þegar menn semja reglur um kosningar mætti miða við að því óafturkræfari sem ákvörðun kjósenda er, því meiri kröfur ætti að gera til kosningarinnar til þess að hún hafi gildi. Þar á meðal um aukinn meirihluta atkvæða, ef gera á róttækar breytingar sem ekki verða afturkallaðar með einföldu móti. Í kosningunni í Skotlandi var kosið um uppskipti ríkjasambands sem varað hefur í meira en þrjár aldir. Það er ekkert vit í því að slíku ríkjasambandi verði slitið, í eitt skipti fyrir öll, af mjög naumum meirihluta atkvæða í aðeins einni kosningu. Ekki síst þegar vitað er að fjöldi manns lætur atkvæði sitt ráðast af því hvor fylkingin pirraði hann meira með áróðrinum á lokasprettinum.
Ef kosið hefði verið í ágúst hefðu sambandssinnar unnið með tæplega 70% atkvæða. Ef kosið hefði verið fyrir viku hefði Stóra-Bretlandi verið skipt upp, eftir þrjú hundruð ára samband. Svo vildi hins vegar til í gær að meirihlutinn var þannig stemmdur að uppskiptunum var hafnað. Gordon Brown hafði tekist vel upp í lokaræðunni. Salmond hafði á sama tíma þótt ótrúverðugur í umræðuþætti um heilbrigðismál. BBC hamaðist auðvitað af hefðbundnu hlutleysi sínu og þannig mætti áfram rekja það sem lagðist á eitt.
Stundum segja menn að „þjóðin“ eigi að skera úr um eitthvað. En þegar þeir segja „þjóðin“, þá eiga þeir í raun við mjög nauman meirihluta þeirra sem mæta á kjörstað á einhverjum tilteknum degi sem stjórnvöld ákveða.
Menn geta horft til Evrópusambandsumræðunnar á Íslandi. Ef miðað er við skoðanakannanir undanfarna áratugi geta menn sagt sem svo að almennt sé mikill meirihluti landsmanna á móti inngöngu í Evrópusambandið. En svo gerist af og til eitthvað sem kemur róti á nægilega marga til að um skamman tíma sýna kannanir meirihlutastuðning við inngöngu. Og hvað ef ESB-sinnuð stjórnvöld ákveða að halda „þjóðaratkvæðagreiðsluna“ einmitt á þeim skamma tíma?
Það er vegna þessa möguleika sem ESB-sinnar vilja endilega að Ísland haldi áfram að vera „umsóknarríki“. Þannig verði hægt, ef einhvern tíma rennur upp örstutt tímaskeið þar sem naumur meirihluti landsmanna er fáanlegur til að samþykkja inngöngu, að skrifa í skyndi undir samning og kjósa svo í flýti, undir lúðrablæstri fréttastofu Rúv., Samtaka atvinnulífsins og ASÍ.
Þannig megi koma Íslandi inn í Evrópusambandið þótt yfirgnæfandi meirihluti landsmanna sé nær alltaf eindreginn á móti inngöngu þangað. Þessa hertækni skilja ESB-sinnar vel, en núverandi stjórnvöld eru blind á hana.