Vefþjóðviljinn 257. tbl. 18. árg.
Ríkið hefur að mestu leyti tekið að sér heilbrigðisþjónustuna hér á landi, bæði reksturinn og kostnaðinn. Ekki eru allir sáttir við að svo sé og færa má ýmis rök gegn því að þetta sé heppilegt.
Ein afleiðingin af þessu fyrirkomulagi er hvers kyns áhætta sem menn taka með heilsuna kann að lenda á heilbrigðiskerfinu og þar með ríkisjóði og skattgreiðendum.
Og þær eru óendanlega margar leiðirnar til að glata heilsunni eða slasa sig.
Frosti Sigurjónsson þingmaður Framsóknarflokksins skrifar í gær í tilefni af því að afnema á sérstakan skatt á sykur:
Sykurskattur skilar ríflega þrem milljörðum í ríkissjóð en í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að hann verði felldur niður. Þótt sykurskattur dragi kannski ekki mikið úr neyslu, þá getur sykurskattur leitt til þess að framleiðendur dragi úr sykurmagni í framleiðsluvörum. Óhófleg sykurneysla er talin vera orsakavaldur fjölmargra sjúkdóma. Meðhöndlun þessara sjúkdóma mun valda miklum kostnaði og kannski eru sanngirnisrök að þeir sem kjósa að borða mikinn sykur greiði skatt. Á 20 árum myndi óbreyttur sykurskattur sem dæmi duga til að greiða upp lán vegna byggingar á nýjum Landsspítala.
Engin leið er að sjá hvar menn enda sem ætla að feta þessa slóð. Verða skíði skattlögð þar sem margir renna á rassinn, brjóta bein og valda miklum kostnaði? Og hvað með annað sem menn geta etið yfir sig af? Feitmeti? Og líkt og menn þekkja þá dugir ekki að borða hollan mat ef menn hreyfa sig ekki. Kaupendur sjónvarpstækja, hægindastóla og sófa hljóta að þurfa að leggja sitt af mörkum til Landsspítalans.
Það er því sennilega einfaldara fyrir þá sem hafa áhyggjur af áhættu skattgreiðenda vegna svonefndra lífstílssjúkdóma að huga að því að ríkið dragi úr ábyrgð sinni á heilbrigðiskerfinu.
Margt fólk notar auk þess sykur í hófi með öðrum mat eða bætir sér upp neyslu á sætindum með nægilegri hreyfingu. Hvers vegna ætti það að sæta þeirri hóprefsingu sem sérstakur sykurskattur er?