Vefþjóðviljinn 251. tbl. 18. árg.
Vitanlega er afnám haftanna eitt allra stærsta verkefni ríkisstjórnar og Alþingis í efnahagsmálum. Það verkefni hefur tekið allt of langan tíma en auðvitað er skiljanlegt að menn vandi sig í ljósi hagsmunanna sem í húfi eru, og miskunnarlausrar gagnrýninnar sem allar aðgerðir munu fá.
Annað er einnig brýnt þótt ekki liggi eins á því og afnámi haftanna, en á hinn bóginn ætti að vera fljótgert að sinna. Það er að loka svokallaðri „fjárfestingarleið“ sem Seðlabankinn hefur boðið undanfarið, en hún snýst í stuttu máli um að Seðlabankinn kaupir erlendan gjaldeyri af mönnum sem leggja svo krónurnar í fasteign, hlutabréf eða verðbréf. Krónurnar fá þeir á betri kjörum en almennt bjóðast og þar með hefst óeðlileg mismunun.
Ef slíkt fyrirkomulag hefði verið ákveðið í stuttan tíma, strax eftir bankahrunið, hefði svo sem mátt hafa skilning á því. Fyrst þegar menn vissu ekki hver áhrif bankahrunsins yrðu og hversu brýn þörfin fyrir erlendan gjaldeyri yrði, og svo framvegis. En nú, mörgum árum eftir bankahrun, á að loka þessari leið. Seðlabankinn kaupir nú erlendan gjaldeyri í milljarðavís til að sporna við hækkun krónunnar.
Með „fjárfestingarleiðinni“ er aðilum mismunað með óeðlilegum hætti, sem kemur meðal annars fram í því að samkeppni fyrirtækja verður ójöfn og samkeppni einstaklinga á markaði verður ójöfn líka. Hlutur í fyrirtæki er til sölu. Tveir menn ásælast hann. Báðir eiga þeir peninga í íslenskum banka en annar á einnig peninga á bankareikningum erlendis. Sá maður kemur einfaldlega með hann „heim“, fær ábót frá Seðlabankanum og býður betur en hinn.