Vefþjóðviljinn 243. tbl. 18. árg.
Það er þér fyrir bestu vinur.
Það er svo margt líkt með því besta í íslensku og amerísku sjónvarpi undanfarin ár.
Hryggjarstykkið er það sama. Maðurinn með prófgráðurnar, sem hefur ekki notið sannmælis að eigin mati, tekur óumbeðinn að sér verkstjórn á lífi ungmennisins sem hugsar um það eitt að stytta sér leiðina í lífsbaráttunni. Er ekki alveg augljóst á langskólagenginn og lífsreyndur hugsuðurinn getur haft vit fyrir auðnuleysingjanum?
Þetta er fyndin samsetningin í sjónvarpinu. En þar sem Vefþjóðviljinn er ekki sjónvarpsvísir heldur virðulegt þjóðmálrit þarf að koma tenging yfir í stjórnmálin. Þetta stef er ekki fyndið í stjórnmálum. En því miður svo algengt.
Þarna er framsóknarmaðurinn með bannið gegn erlendum mat, því það er þér fyrir bestu vinur að valið sé á diskinn fyrir þig. Hann vill háa tolla á það litla sem flytja má til landsins en er efins um að matur eigi að bera sama virðisaukaskatt og aðrar vörur því það komi illa við tekjulægstu heimilin.
Svo kemur femínistinn í VG eða Samfylkingunni og velur fötin á þig við helstu tilefni. Hann fær stuðning íslamistans. Saman segja þeir að það sé konum fyrir bestu.
Sjálfstæðismaðurinn skikkar þig svo til að nota dýra matarolíu á bílinn. Það er bæði þér og umhverfinu fyrir bestu.
Margir ofangreindir telja þig ekki færan um að fara í matvörubúð ef þar fengist áfengi, ekki hafa sjálfdæmi um hvort þú reykir í fyrirtækinu þínu eða skipar bara stelpur í stjórn.
Öllum þessum ber svo saman um að það sé þér fyrir bestu að þeir ráðstafi helmingi launa þinna.