Vefþjóðviljinn 236. tbl. 18. árg.
Á síðasta kjörtímabili ríkti hér róttæk vinstristjórn. Það vita flestir.
Meðal þess örfáa af róttækum vinstriverkum síðustu ríkisstjórnar sem líklega mun hverfa á kjörtímabilinu er eignaskatturinn, sem vinstrimennirnir nefndu „auðlegðarskatt“ í áróðursskyni. Sá skattur mun líklega hverfa, en það verður ekki vegna þess að núverandi ríkisstjórn hafi haft frumkvæði að því heldur vegna þess að fyrri stjórn hafði ákveðið að hann félli úr gildi með tímanum og bráðum kemur að því.
Auðvitað hafa vinstrimenn í meira en eitt ár látið eins og núverandi ríkisstjórn hafi afnumið skattinn, en staðreyndin er sú að núverandi ríkisstjórn gerði ekki annað en láta þessi lög Jóhönnustjórnarinnar standa óbreytt, eins og nær öll önnur. Núverandi ráðherrar hafa í fimmtán mánuði ekki gert neitt til að snúa neinu við sem Jóhönnustjórnin gerði.
Á dögunum birti viðskiptablað Morgunblaðsins langt viðtal við Baldur Björnsson, framkvæmdastjóra Múrbúðarinnar, sem á í harðri samkeppni á byggingavörumarkaði. Eignarskatturinn, „auðlegðarskatturinn“, hefur komið hart niður á Baldri. Hann segir:
Ég hef þurft að greiða tugi milljóna í auðlegðarskatt á síðustu árum. Það þykir mér ósanngjarnt enda á ég ekki háar fjárhæðir inni á bankabók til að standa straum af skattinum. Þess vegna þurfti ég að bregða á það ráð að selja atvinnuhúsnæði uppi á Höfða til að geta greitt ríkinu. Og ekki seldi ég fasteignina þegar mér hugnaðist heldur þegar illa áraði á markaðnum fyrir fáeinum árum. Ég hefði svo sem getað tekið lán til að fjármagna skattgreiðsluna en það þótti mér ótækt. Skatturinn er ótengdur tekjum eða afkomu. Ég á tvö fyrirtæki, Múrbúðina og fasteignafélag, og þau voru bæði rekin með tapi í fyrra. Ég þarf að taka fjármuni úr þeim til að geta greitt skattinn.
Baldur nefnir annað í þessu sambandi sem ekki er víst að allir hugsi út í. Fyrirtæki hans er í samkeppni við til dæmis Húsasmiðjuna og Bauhaus. Eigendur þeirra eru ekki íslenskir ríkisborgarar og borga hér ekki „auðlegðarskattinn“ sem Baldur þarf að gera.
Friðrik Skúlason var lengi meðal þekktustu viðskiptamanna landsins og gat sér orð víða um heim á sínu sviði með tölvuvarnarforriti sínu. Hann og kona hans ráku fyrirtæki sem þau kenndu við Friðrik og var það í fremstu röð. Fyrir nokkru seldu þau fyrirtæki sitt til bandarísks fyrirtækis. Í viðtali við Viðskiptablaðið sagði hann frá ástæðum þess.
Þau hjónin hefðu ekki greitt sér arð úr fyrirtækinu heldur nýtt hagnað til að byggja fyrirtækið upp. Fyrirtækið hefði því verið verðmætt og á þau hefði verið lagður „auðlegðarskattur“ vegna eignar sinnar í því. Hefði hann því átt þá kosti að skuldsetja fyrirtækið til að geta greitt sér arð og borgað „auðlegðarskattinn“, að skera niður rekstur félagsins til að geta greitt arð fyrir skattinum, eða þá að selja félagið. Það hefði verið einfaldast. Eftir söluna voru nokkrar deildir lagðar niður eða fluttar úr landi og hér á landi misstu tuttugu manns vinnuna við þetta.
Vinstrimenn virðast aldrei skilja að mun fleiri tapa á ofsköttun en þeir sem greiða þurfa háu skattana. Engar svona sögur breyta neinu um áhuga vinstrimanna á því að skattleggja sem mest. Þeim finnst „auðlegðarskattur“ næstum því eins mikilvægur og sérstök skattheimta á sjávarútveginn, umfram allar aðrar atvinnugreinar. Þeir voru svo ákafir í þeirri skattheimtu að núverandi ríkisstjórn þorir ekki að hagga við henni svo nokkru máli skipti.