Mánudagur 18. ágúst 2914

Vefþjóðviljinn 230. tbl. 18. árg.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa á síðustu dögum lýst þeirri skoðun að rétt sé að skipta innanríkisráðuneytinu upp svo að nýju verði til ráðuneyti samgöngumála og dómsmála. Um þetta er tvennt að segja.

Í fyrsta lagi er þetta ekki fjarstæðukennd hugmynd. Það var ástæðulaust að sameina þessi tvö ráðuneyti sem ekkert áttu sameiginlegt. Þótt sjálfsagt sé að draga sem mest úr starfsemi hins opinbera var þessi sameining að því er virðist án ávinnings.

Þetta var það fyrra. Það er líklega ekkert því til fyrirstöðu að skipta ráðuneytinu upp.

Það síðara er hins vegar mjög mikilvægt. Það er hin æpandi spurning, hvers vegna þetta hafi ekki verið gert fyrir löngu.

Jóhönnu-stjórnin barði breytingar á stjórnarráðinu í gegnum þingið, enda vildi sú stjórn bylta öllu sem hægt var. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið var vinstristjórninni þyrnir í augum. Hún breytti nafni þess strax í dóms- og mannréttindaráðuneytið og svo varð innanríkisráðuneytið til. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var ríkisstjórn byltingar og öfga. Núverandi ríkisstjórn hefur þá skyldu að afturkalla nær allt það sem vinstristjórnin gerði í byltingarskyni.

Núverandi ráðherrar hafa engan skilning á þessu. Þeir þora ekkert að gera sem gæti orðið umdeilt. Þeir hafa í raun afhent stjórnarandstöðunni neitunarvald um allt sem gert er. Ráðherrarnir bera fyrst og fremst fram embættismannafrumvörp, sem helst voru lögð drög að í tíð síðustu stjórnar, og leggja áherslu á að ekki verði um þau pólitískur ágreiningur.

Allt sem vinstristjórnin gerði stendur óhaggað. Jafnvel umsóknin um aðild að Evrópusambandinu.