Helgarsprokið 10. ágúst 2014

Vefþjóðviljinn 222. tbl. 18. árg. 

Það virðist almennt tíðkast að innheimta mjög lágt gjald fyrir afnot af tjaldsvæðum hér á landi. Gjald fyrir fullorðinn virðist oft vera um 1.000 krónur eða 2.000 krónur fyrir hvert tjald eða tjaldvagn.

Þetta gjald er nánast til málamynda og stendur varla undir mikilli fjárfestingu eða rekstrarkostnaði.

Og hvernig ætli standi á því að þessi þjónusta er nánast gefins?

Gæti skýringin á því verið að sveitarfélög bjóði víða tjaldstæði og niðurgreiði þjónustuna með útsvarspeningum íbúa? Og sem kunnugt er að gernýta mörg sveitarfélög þann „tekjustofn“ sem þau nefna íbúa gjarnan.

Vefþjóðviljinn hefur engar tölur sem styðja þennan grun hans um að sveitarfélögin niðurgreiði þessa þjónusta og vafalaust vita sveitarfélögin það ekki sjálf hve niðurgreiðslan er mikil, þetta er bara eitthvað sem sveitarstjórnarmenn gera nánast hugsunarlaust, til að vera menn með mönnum. En það er hins vegar fátt sem sveitarfélögin koma nálægt sem þau niðurgreiða ekki með skattfé enda væri þá engin ástæða fyrir aðkomu þeirra.

Ein augljós afleiðing af þessari niðurgreiðslu sveitarfélaganna er að aðrir eigendur tjaldstæða hafa lægri tekjur af stæðum sínum og hafa minna svigrúm til að bæta alls kyns þjónustu sem tjaldbúar sækjast eftir eins og elduna- og hreinlætisaðstöðu og aðgang að rafmagni úti á tjaldstæðunum. Varla er heldur mikill afgangur til að slétta svæðin, planta trjágróðri í skjólbelti eða setja upp leiktæki fyrir börn.

En þetta rýmar hins vegar ágætlega við þá stefnu ríkisins að ferðamenn þurfi ekki að greiða skatta eins og annað fólk, til að mynda af gistingu. Á sama tíma og erlendir ferðamenn fá undanþágu frá sköttum og niðurgreidd tjaldstæði er það svo rætt fram og til baka hvernig megi auka tekjur þeim.