Laugardagur 9. ágúst 2014

Vefþjóðviljinn 221. tbl. 18. árg.

Í vikublaðinu Reykjavík, sem dreift er í hús í borginni, segir að borgarráð hafi samþykkt „samningsdrög borgarinnar við Knattspyrnusamband Íslands um hátt í 600 milljóna króna framlag borgarinnar til reksturs Laugardalsvallar“, en samningurinn á að gilda í tólf ár og borgin á samkvæmt honum að greiða KSÍ um 46 milljónir króna á ári. Auk þess á borgin að greiða rúmlega 33 milljónir að auki „vegna aukins rekstrarkostnaðar á Laugardalsvelli á árunum 2007-2013“.

Í Reykjavík er innheimt hámarksútsvar og borgaryfirvöld telja ekki hægt að lækka það. Þau myndu vafalaust hækka það ef þau gætu. Ekkert segir í fréttinni um að minnihlutinn í borgarstjórn hafi sagt eitthvað um þennan samning.

Hvað fær Knattspyrnusambandið árlega í greiðslur frá UEFA?

Hvað fær Knattspyrnusambandið fyrir sölu á sjónvarpsrétti, á leikjum sem leiknir eru á vellinum sem borgin borgar Knattspyrnusambandinu fyrir að reka?

Er einhver borgarfulltrúi talsmaður útsvarsgreiðenda en ekki þrýstihópa?