Vefþjóðviljinn 220. tbl. 18. árg.
Með Ríkisútvarpið eins og það er, mætti auðvitað hugsa sér að ekki þyrfti að gera fleira til að boða róttæka vinstristefnu á sem flestum sviðum. En auðvitað vilja róttækir vinstrimenn meira og halda því í sumar námskeið sem þeir kalla róttæka sumarháskólann, þar sem mjög róttæk vinstriheimsmynd er borin á borð fyrir ungt fólk. Þetta fer fram í húsnæði Reykjavíkurakademíunnar, sem er í áskrift að opinberum styrkjum og gerði fyrr á þessu ári þriggja ára samstarfssamning við menntamálaráðuneyti Illuga Gunnarssonar.
Ekki er ástæða til að áfellast róttæka vinstrimenn fyrir að reyna að breiða heimsmynd sína út. Þeir trúa því að hún sé í stórum dráttum rétt og vilja því koma henni sem víðast á framfæri. Það sem er meira áhyggjuefni er deyfð hægrimanna og borgaralega sinnaðs fólks við að andæfa vinstrimönnum. Þar skiptir vafalaust máli að undanfarin ár hefur forysta Sjálfstæðisflokksins verið mjög áhugalaus um hugmyndafræðilega baráttu við vinstriöflin. Ráðherrar þeirra virðast flestir láta sér nægja að bera fram embættismannafrumvörp og hafa mestar áhyggjur af því hvort einhver ágreiningur verði um afgreiðslu þeirra.
Forysta Sjálfstæðisflokksins ræðir sjaldan almenna pólitíska hugmyndafræði. Hún mótmælir sjaldan kreddum vinstrimanna eða rangtúlkun vinstrimanna á atburðum. Hún vill að vísu hallalaus fjárlög, en hún ræðir aldrei hvort sjálfsaflafé fólks eigi betur heima hjá því sjálfu eða hinu opinbera. Hún lækkar ekki skatta sem neinu nemur, hún rökstyður ekki einu sinni að stefna þurfi eindregið í þá átt. Sveitarstjórnarmenn eru þar engu betri en þingmenn. Forysta Sjálfstæðisflokksins ræðir sjaldan um frelsi einstaklingsins til að ráða lífi sínu sjálfur. Hún haggar ekki einu sinni við reglum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Hún haggar ekki við tóbakslögunum. Hún leyfir fólki ekki að semja um „smálán“.
Það er sjálfsagt af róttækum vinstrimönnum að efna til námskeiða til að kynna sjónarmið sín. Það eru hægrimenn sem þurfa að reka af sér slyðruorðið. Þeir mega margir taka sér varaþingmanninn Óla Björn Kárason til fyrirmyndar, en hann skrifar reglulegar blaðagreinar og sendir frá sér bækur af hugmyndafræðilegum toga. Þær fást í Bóksölu Andríkis.